Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., mun láta af störfum sem forstjóri útgerðarfélagsins í júní næstkomandi. Baldvin Þorsteinsson, sonur hans, tekur þá við stöðunni. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Samherja.
„Ég hef tekið ákvörðun um að láta af störfum sem forstjóri Samherja hf. eftir að hafa gegnt því starfi í 42 ár eða frá stofnun félagsins árið 1983. Starfslok verða í næsta mánuði,“ segir í bréfi Þorsteins Más til starfsfólks.
Stjórn Samherja hf. gekk í vikunni frá ráðningu Baldvins Þorsteinssonar í starf forstjóra. Baldvin er einn af stærstu hluthöfum Samherja hf. og hefur verið stjórnarformaður félagsins frá 2023.
„Ég ákvað fyrir löngu síðan að ég ætlaði að hætta sem forstjóri á mínum forsendum áður en ég yrði gamall og leiðinlegur. Eftir rúma fjóra áratugi í svona starfi er eðlilegt að líði að starfslokum. Allt hefur sinn tíma og sjálfum finnst mér þessi tímasetning heppileg,“ segir Þorsteinn Már.
„Ekki dugar að biða eftir lygnum sjó, í þessari grein kemur sá tími líklega seint. Þegar við frændurnir hófum rekstur þá komst skrifstofan fyrir heima í eldhúsi en í dag starfa rúmlega 800 manns hjá samstæðu Samherja. Ég er mjög stoltur af þeim stóra hópi.“

Þorsteinn Már segir að þótt ákvörðunin marki kaflaskil þá sé hann ekki alveg sestur í helgan stein enda sitji hann í stjórnum félaga sem Samherji á stóran hlut í, þar á meðal Samherja fiskeldi ehf. og Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað þar sem hann hef verið stjórnarformaður frá 2003.
Í bréfinu er bent á að saga Samherja í núverandi mynd hófst árið 1983 þegar Þorsteinn Már og frændur hans, Kristján og Þorsteinn Vilhelmssynir, keyptu útgerðarfélagið Samherja hf. í Grindavík.
Helsta eign þess félags var togarinn Guðsteinn GK 140 sem hafði verið smíðaður í Póllandi níu árum áður. Eftir þessa fjárfestingu var togarinn fluttur til Akureyrar þar sem við réðumst í miklar breytingar á skipinu. Þær fólust í því að umbreyta skipinu í frystitogara sem var nefndur Akureyrin EA 10 og fór í sína fyrstu veiðiferð í desember 1983.
„Frá þeim tíma hefur Samherji vaxið og dafnað og er í dag eitt stærsta og öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Samherji er lóðrétt samþætt alhliða sjávarútvegsfyrirtæki sem stundar veiðar og vinnslu, sölu og landeldi. Félagið hefur ráðist í miklar fjárfestingar í fiskvinnslu á undanförnum árum og rekur eina fullkomnustu landvinnslu í heimi fyrir botnfisk á Dalvík. Samherji hefur alltaf haft höfuðstöðvar sínar á Akureyri og stærstan hluta starfseminnar á Eyjafjarðarsvæðinu.“