Gunnar Smári Egilsson, oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík norður og stofnandi flokksins, var spurður í hlaðvarpinu Kaffikróknum út í stefnu Sósíalista um að takmarka þingsetu hjá fólki með tengsl við stórfyrirtæki.

Í stefnuskrá Sósíalistaflokksins segir: „Fólk sem hefur of mikil tengsl við stórfyrirtæki eða fjármagn hafi ekki aðgang að þingsetu/ráðherrastól svo það sé óumdeilt að þingmenn vinni fyrir almannahag.“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, sagði að þarna væri flokkurinn að leggja til að borgaraleg réttindi, þ.e. kjörgengi, væru tekin af fólki og spurði hvernig ætti að ákveða hver mætti bjóða sig fram til þings og hver ekki.

Gunnar Smári vildi ekki kannast við að þetta væri neitt lykilatriði í stefnu flokksins, en sagði síðan:

„Stórfyrirtæki væri kannski Samherji eða Brim. Schumpeter, sem hægrimenn flagga mikið, sagði einhvern tímann að hann vildi ekki að opinberir starfsmenn hefðu kosningarétt. Þeir hefðu næg áhrif á samfélagið í gegnum störf sín. Þorsteinn Már Baldvinsson og Guðmundur í Brimi hafa alveg nóg áhrif á samfélagið í krafti auðs síns þótt þeir fari ekki líka að sitja á þingi.“

Þannig að þeir ættu ekki að fá að bjóða sig fram til þings?

„Ja ég held að það sé bara verið að vísa í eitthvað svona þarna. Þetta er ekki fremst á kröfulista Sósíalista eða úrslitaatriði um það hvort við förum inn í ríkisstjórn.“

Vilja hækka tekjuskatt fyrirtækja en lækka tryggingagjald

Gunnar Smári segir flokkinn vilja lækka tryggingagjald en hækka tekjuskatt fyrirtækja til að snúa við því sem hann kallar tilfærslu skattbyrði frá stærri fyrirtækjum til þeirra minni.

„Atvinnurekendur í smærri atvinnurekstri hafa verið sviknir af stjórnvöldum sem hafa með stórfyrirtækjunum búið til rekstrarumhverfi í kringum fyrirtæki sem gerir smærri fyrirtækjunum mjög erfitt fyrir,“ sagði Gunnar Smári.

Hann sagði að tekjuskattur fyrirtækja hefði verið lækkaður, sem kæmi einkum til góða fjármagnseigendum sem vildu taka peninga út úr fyrirtækjunum, en minni fyrirtæki væru lítið í því. Á sama tíma hefði tryggingagjald hækkað og þannig hefði skattbyrði færst frá stærri fyrirtækjum til hinna smærri. Aðspurður sagðist hann vilja snúa þessu við.

„Við höfum talað um þrepaskipta skatta þannig að stærð sé skattlögð og það á við um tekjuskattinn og stórfyrirtækin en það á líka að þrepaskipta tryggingagjaldinu, þannig að kannski fyrstu 20 starfsmennirnir séu bara án tryggingagjalds.“

Fiskeldið færi betur í bæjarútgerðarformi

Ólafur og Gunnar Smári ræddu um þjóðnýtingarhugmyndir Sósíalistaflokksins og hvaða starfsemi, sem í dag er í höndum einkaaðila, væri betur komin í höndum ríkisins að mati sósíalista. Gunnar Smári ræddi ágæti bæjar- og samvinnuútgerða í fortíðinni og Ólafur spurði hvort hann vildi endurreisa þær.

„Ég sé enga ástæðu til að hallmæla því. Talandi um bæjarútgerðir, þegar ég keyri um Patreksfjörð og Tálknafjörð og horfi á fiskeldið í firðinum, þar sem er verið að nota úthaga þessara bæjarfélaga, sem eru gæði fjarðanna, ég held að þessi rekstur færi betur í bæjarútgerðarformi. Að það væru Patreksfirðingar sem rækju fiskeldið í Patreksfirði frekar en norskir auðkýfingar, sem eru ekki að reka þetta vel.

Þeir virðast líta svo á að þetta sé tímabundið, þar sem þeir geta gengið að þessum gæðum svona ódýrt. Þeir eru að reyna að framleiða sem allra mest. Þeir eru ekki að byggja upp markað fyrir íslenskar vörur. Það er enginn úti í heimi að kaupa fiskinn frá Patreksfirði. Það er engin alvöru atvinnuuppbygging.“

Gunnar segir t.d. bankana hafa verið betur rekna í ríkiseigu en af einkaaðilum. Það sé þó misskilningur að sósíalistar tali sérstaklega fyrir ríkisrekstri. „Við erum fyrir því að fólk eigi sjálft atvinnutækin, þannig að við tölum fyrir alls konar samvinnufyrirtækjum.“

Ólafur og Gunnar Smári ræða margt fleira í viðtalinu, til dæmis afstöðu Sósíalistaflokksins til samkeppnismála, samanburð við Kúbu og Venesúela og hugmyndir sósíalista um að skattleggja sjálfvirkni- og róbótavæðingu.