Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað í gær að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,25% og 5,5% en meginvextir bankans hafa ekki verið hærri í tvo áratugi.
Jerome Powell seðlabankastjóri sagðir á blaðamannafundi í gær að bakslag í baráttunni við verðbólguna sé þess valdandi að vextir verði óbreyttir lengur en vonir stóðu til. Hann gaf þó í skyn að vaxtahækkunarferli bankans væri lokið.
„Það mun líklega taka okkur lengri tíma að treysta að við séum á sjálfbærri vegferð,“ sagði Powell en The Wall Street Journal greinir frá.
Hann sagðist bjartsýnn á að verðbólgan myndi lækka í ár en þó ekki jafn bjartsýnn og hann var um áramót. Hins vegar þyrfti mikið að breytast svo bankinn myndi byrja að íhuga að hækka vexti að nýju.
„Það er eitthvað sem ég held að við séum ekki að fara sjá en svarið við þeirri spurningu mun leynast í hagtölum,“ sagði Powell.
Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hækkuðu snögglega í gær eftir ákvörðun bankans var kynnt sem var þó fyrirséð. S&P 500 vísitalan hækkaði um 1,2% en endaði þó 0,3% lægri en frá dagslokagengi þriðjudagsins.
Vaxtahækkunarferli Seðlabankans hófst um 2022 en vextir bankans voru fram að því nálægt núlli.
Þrjátíu ára húsnæðislán með föstum vöxtum stóð í 7,17% í síðustu sem er hækkun úr 6,61% í byrjun árs, samkvæmt Freddie Mac.
Vísitala neysluverðs í Bandaríkjunum hækkaði meira en búist var við í síðasta mánuði og mældist ársverðbólga 3,5%.
Kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í orku- og matvælageiranum, mældist 2,8% í síðasta mánuði sem er lækkun úr 4,8% í mars 2023.
Hins vegar hefur kjarnaverðbólgan hækkað um 3% á ársgrundvelli síðustu sex mánuði eftir að hafa hækkað 1,9% sex mánuðina þar á undan og veldur það áhyggjum.