Urriðaholt ehf., sem á og leigir út land í samnefndu hverfi í Garðabæ, hagnaðist um 11 milljónir króna í fyrra.
Til samanburðar hagnaðist félagið um 191 milljón króna árið áður. Urriðaholti ehf. var skipt upp á síðasta ári og tók félagið Brekkutögl ehf. við meirihluta eigna félagsins, þ.m.t. óseldum byggingarrétti atvinnuhúsalóða.
Brekkutögl hagnaðist um 633 milljónir króna á síðasta ári. Þar af nam söluhagnaður eignarhluta í dótturfélagi 585 milljónum króna og vaxtatekjur 106 milljónum.
Bókfært virði landareignarinnar var 147 milljónir í árslok 2024 en stærsta eign félaganna tveggja var handbært fé Brekkutögls upp á 2,5 milljarða króna. Til samanburðar nam handbært fé Urriðaholts 1,3 milljörðum króna árið áður.
Þá drógust kröfur á tengda aðila saman um milljarð króna milli ára, námu 1,1 milljarði króna árið 2023 en voru 107 milljónir króna á síðasta ári.
Eigið fé Brekkutögls nam 2,5 milljörðum króna á síðasta ári og eigið fé Urriðaholts 259 milljónum. Skuldir Brekkutögls námu hundrað milljónum króna í fyrra, þar af voru 86 milljónir gagnvart tengdum aðilum. Skuldir Urriðaholts voru þá rúmlega 3,1 milljón króna.
Stefnir í 1,8 milljarða arð til Oddfellow-sjóðs frá 2020
500 milljónir króna voru greiddar í arð til hluthafa Urriðaholts á árinu 2024 vegna rekstrarársins 2023. Stjórn Brekkutögls leggur til að aðrar 500 milljónir króna verði greiddar til hluthafa á árinu 2025 vegna rekstrarársins 2024.
Því hafa 650 milljónir króna runnið til Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa á árunum 2024-2025, sem hefur átt 65% hlut í Urriðaholti ehf. frá stofnun þess árið 2005, og á nú jafn stóran hlut í Brekkutögli. Mun Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa því alls hafa þegið ríflega 2,3 milljarða króna í arð frá félaginu, þar af 1,8 milljarða frá árinu 2020.