Um 3.700 áskriftir bárust fyrir um 32,3 milljarða króna í hlutafjárútboði Hampiðjunnar sem lauk kl. 14 í dag. Útboðsgengi í áskriftarbók B var 130 krónur á hlut og var heildarsöluandvirði í útboðinu um 10,9 milljarðar króna.
Fjárfestum verður tilkynnt um úthlutun í útboðinu eigi síðar en á mánudaginn, 5. júní, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Sexföld eftirspurn í bók A
Hampiðjan bauð alls 85 milljónir nýja hluti til sölu í útboðinu sem jafngildir 13,37% af heildarhlutafé eftir hlutafjárhækkun. Þar af voru 17 milljónir hlutir í áskriftarbók A, fyrir tilboð undir 20 milljónir króna, og 68 milljónir hlutir í áskriftarbók B, fyrir stærri tilboð.
Tæplega sexföld eftirspurn var eftir þeim hlutum sem boðnir voru í áskriftarbók A þar sem boðið var upp á fast verð sem nemur 120 krónur á hlut. Áskriftir upp að 500 þúsund krónum að kaupverði voru ekki skertar en skerðing áskrifta í bók A var að öðru leyti hlutfallsleg.
„Við úthlutun voru áskriftir almennt skertar sem nemur um 95% en þó þannig að viðmiðum gagnvart áskriftum starfsmanna Hampiðjunnar og almennum áskriftum var fylgt, líkt og stefnt var að samkvæmt skilmálum útboðsins,“ segir um skerðingu í bók A.
Í áskriftarbók B er útboðsgengi 130 krónur á hlut eða 8,3% hærra en í bók A. Tæplega þreföld eftirspurn var eftir hlutum sem boðnir voru í áskriftarbók B. Fjárfestar í þeim flokki sem tilgreindu lægra útboðsgengi fengu enga úthlutun. Áskriftir í bók B voru skertar hlutfallslega sem nemur um 40%.
Snúa aftur á aðalmarkaðinn sem eitt af stærstu félögunum
Stefnt er að því að viðskipti með hlutabréf félagsins á aðalmarkaði Kauphallarinnar hefjist á föstudaginn næsta, 9. júní. Nasdaq Iceland hefur þegar samþykkt umsókn félagsins um töku hlutabréfanna til viðskipta án fyrirvara.
„Það er gríðarlega ánægjulegt að finna þennan mikla áhuga fjárfesta á Hampiðjunni og bjóðum við nýja hluthafa hjartanlega velkomna í hluthafahópinn. Það eru spennandi tímar framundan og hlutafjáraukningin tryggir að okkar fyrirætlanir um endurfjármögnun Mørenot og uppbyggingu á framleiðslueiningum í Litháen, til að nýta samlegðaráhrifin sem fylgja kaupunum, gangi eftir,“ segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar.
„Hampiðjan snýr nú aftur á Aðalmarkaðinn, eftir sextán ár á First North markaðinum, sem eitt af stærstu félögum markaðarins.“
Gjalddagi áskriftarloforða fjárfesta er 7. júní næstkomandi og er ráðgert að afhending hinna nýju hluta til fjárfesta fari fram þann 9. júní.