Bílaleigan Blue Car Rental, sem er staðsett rétt við Keflavíkurflugvöll, keypti bifreiðar fyrir 5,1 milljarð í fyrra samanborið við 1,5 milljarða árið 2021. Magnús Sverrir Þorsteinsson, stjórnarformaður Blue Car Rental, segir að árið 2022 hafi verið eitt af þremur stærstu árum bílaleigunnar þegar kemur að bílakaupum.
„Við vorum búnir að selja okkur töluvert niður eftir Covid þannig að það var kominn tími á að bæta aftur í.“
Mikla fjárfestingu á síðasta ári mega bæði rekja til endurnýjunar og uppsafnaðrar þarfar. Magnús Sverrir gerir þó ráð fyrir minni fjárfestingu í bílum í ár.
„Umhverfið býður ekki upp á annað en bílar hafa hækkað mikið í verði. Sömuleiðis þurfum við færri bíla í ár eftir fjárfestingu síðasta árs.“
Bílaleigustéttin eftirbátur í rafbílavæðingu
Blue Car Rental hefur áform um að fjölga talsvert hreinum rafmagnsbílum en þeir vega nú yfir 5% af flota félagsins. Þá eru tengiltvinnbílar orðnir um 40% af flota félagsins. Magnús Sverir segir að þó aukinn kraftur sé að færst í rafbílavæðinguna þá sé bílaleigustéttin heilt yfir á eftir almennri þróun í landinu.
Þörf sé á uppbyggingu innviða, líkt og hleðslustöðva, víða um land til að styðja við þessa vegferð. Jafnvel svæðið í kringum Keflavíkurflugvöll ætti erfitt með að standa undir mikilli fjölgun rafbíla að sögn Magnúsar. Hann bætir við að í flestum tilvikum séu úthlutaðir rafbílar birgja til bílaleiga af skornum skammti sem hafi hægt á þróuninni.
Fréttin er hluti af nánari umfjöllun um fjárfestingar bílaleigufyrirtækja sem birtist í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast greinina hér.