Sam­kvæmt heimildum Við­skipta­blaðsins hafa átt sér stað óformlegar viðræður í dag um myndun nýs meirihluta í borginni. Ástæðan er ósætti á meðal núverandi meirihluta Sam­fylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar. Meirihlutasamstarfið hangir á bláþræði samkvæmt heimildum blaðsins.

Eðli málsins sam­kvæmt verður ekki boðað til kosninga ef meiri­hlutinn í Reykja­vík springur heldur þurfa flokkarnir að koma sér saman um að mynda nýjan meiri­hluta fram að sveitar­stjórnar­kosningum í maí 2026.

Þrír kostir í stöðunni

Sam­kvæmt heimildum Við­skipta­blaðsins hafa Sjálf­stæðis­flokkurinn, Framsókn, Viðreisn og Flokkur fólksins verið í óform­legum samtölum og eru þeir flokkar taldir lík­legir til að mynda meiri­hluta, ákveði Einar Þorsteinsson borgarstjóri að slíta samstarfinu

Borgar­full­trúar í Reykja­vík hafa verið 23 talsins frá því í kosningunum 2018, þar áður sátu 15 borgar­full­trúar í borgar­stjórn. Það þarf því 12 borgar­full­trúa til að mynda meiri­hluta.

Það er því einnig hægt að mynda fimm flokka vinstri meiri­hluta með full­trúum Sam­fylkingarinnar, Vinstri grænna, Sósíalista­flokksins, Flokki fólksins og Pírata.

Þá kemur einnig til greina að núverandi meirihluti starfi áfram en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er talið líklegt að það yrðu gerðar einhverjar breytingar innan meirihlutans áður en lengra er haldið.

Sjálf­stæðis­flokkurinn langstærstur í könnunum

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar Gallup á fylgi flokkanna í borginni, sem Viðskiptablaðið greindi frá í vikunni, er fylgi Pírata og Framsóknarflokksins á góðri leið með að þurrkast út.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 31,2% fylgi í könnun Gallup, sem framkvæmd var dagana 13. til 31. janúar 2025. Flokkurinn tekur mikið stökk frá könnun sem gerð var í október en þá mældist flokkurinn með 21,1%. Í borgarstjórnarkosningunum 2022 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 24,5% atkvæða og 6 borgarfulltrúa kjörna en samkvæmt nýju könnuninni fengi flokkurinn 8 borgarfulltrúa.

Framsóknarflokkurinn mælist með einungis 3,3% fylgi, sem er svo sem svipað og hann var með í könnun Gallup í október þegar hann mældist með 3,5%. Fylgi Framsóknarflokksins hefur verið á stöðugri niðurleið síðan í kosningunum 2022 þegar hann fékk 18,7% og 4 borgarfulltrúa kjörna eins og áður sagði.

Píratar hafa í gegnum árin verið nokkuð sterkir í borginni, sem dæmi fékk flokkurinn 11,6% atkvæða í kosningunum 2022. Í fjórum könnunum Gallup á síðasta ári mældist flokkurinn með 10,4 til 12,1% fylgi í borginni. Í könnunni sem gerð var nú í janúar hrynur fylgi flokksins niður í 4,4%, sem þýðir að flokkurinn fengi 1 borgarfulltrúa kjörinn.

Það hefur hrikt í meiri­hluta­sam­starfinu á síðustu dögum. Til að mynda studdi Einar og aðrir borgar­full­trúar Framsóknar til­lögu Sjálf­stæðis­flokksins varðandi áfram­haldandi veru flug­vallarins í Vatns­mýri, og breytingu á aðal­skipu­lagi þar að lútandi.

Á síðustu árum hefur meiri­hlutinn í borginni kosið gegn sam­bæri­legum til­lögum og unnið að þeirri stefnu að flytja eigi flug­völlinn burt úr Vatns­mýrinni.

Einar Þor­steins­son borgar­stjóri sagði í þætti Dag­mála að af­staða Framsóknar í málinu ætti að koma neinum á óvart en viður­kenndi sömu­leiðis að málið hafi haft áhrif á meiri­hluta­sam­starfið.

„Ég skal bara vera hrein­skilinn, það hriktir aðeins í, í kringum þetta mál – og eðli­lega. Af­staða Sam­fylkingar og Pírata, og að ein­hverju leyti Viðreisnar líka, hefur alveg verið skýr að þau vilja flug­völlinn burt. Við höfum ekki verið þar,“ segir Einar.

Vöru­húsið í Álfa­bakka hefur verið á allra vörum síðustu vikur er Græna tímaldið hefur orðið að tán­mynd þeirrar þéttingar­stefnu sem meiri­hluti síðustu ára hefur verið að reka í borginni.

Í viðtali við Við­skipta­blaðið um fram­kvæmda­könnun sagði Einar að hann teldi vöru­húsið ekki vera ástæðuna fyrir fylgis­tapi Framsóknar­flokksins í borginni.

„Ég held að þetta mál hafi ef­laust áhrif á stöðu fylgisins að ein­hverju leyti. Verst er þó sá að þetta er mál sem við í Framsókn berum enga ábyrgð á – en fáum í fangið að bæta úr,“ sagði Einar.

„Okkur tekst greini­lega ekki nægi­lega vel að koma til skila þeim árangri sem við höfum náð, t.a.m. í því að snúa við miklum halla­rekstri í af­gang. Við höldum þó ótrauð áfram og erum þess full­viss að þegar dregur nær kosningum munum við geta sýnt kjó­sendum að við höfum náð miklum árangri, í rekstri, leikskólamálum og húsnæðis­málum svo fátt eitt sé nefnt,“ sagði Einar.