Raungengi íslensku krónunnar hefur ekki verið hærra frá árinu, hvort sem miðað er við mælikvarða verðlags eða hlutfallslegs launakostnaðar. Hærra raungengi krónunnar hefur í för með sér að innlend framleiðsla verður hlutfallslega dýrari sem að óbreyttu skerðir samkeppnistöðu íslenskra útflutningsgreina.
„Gengisbreytingum af þessum toga fylgir peningalegt aðhald sem þrengir að útflutningsgreinunum,“ segir Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri ráðgjafar- og greiningarfyrirtækisins Analytica og hagfræðingur.
Aðspurður segir hann að áhrif af hækkun raungengis geti tekið tíma að seytla í gegn. Þó nafngengishækkun hafi snögglega áhrif þá geta gjaldeyrisvarnir leitt til þess að áhrifin koma ekki strax fram hjá útflutningsgreinum.
Útflutningsgreinar standi heilt yfir vel
Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur Arion Greiningar, telur enn sem komið er útlit fyrir að sterk staða íslenskra útflutningsgreina geri það að verkum að áhrif hærra raungengis séu ekki jafnmikið áhyggjuefni og þegar það var síðast hærra árin 2017 og 2018.
Heilt yfir sé góður gangur hjá íslenskum útflutningsfyrirtækjum, hvort sem það er í rótgrónum geirum eða starfsgreinum sem eru í meiri uppbyggingarfasa á borð við hugverkaiðnaðinn, lyfjageirann og fiskeldið. Jafnframt megi sjá metnaðarfullar áætlanir hjá íslensku flugfélögunum. Raunar kunni uppgangur téðra útflutningsgeira einmitt að skýra að hluta hækkun raungengisins.
„Sagan sýnir þó að svona mikil hækkun á raungenginu getur haft talsverð áhrif,“ segir Konráð.
Stuðli að frekari viðskiptahalla
Undanfarin tvö ár hefur verið halli á viðskiptajöfnuði, nánar tiltekið 58 milljarða halli árið 2022 og 78 milljarða halli árið 2021. Þar áður hafði verið samfellt tímabil af viðskiptaafgangi á árunum 2013-2020. Á fyrri helmingi þessa árs var 4 milljarða króna halli á viðskiptajöfnuði. Í nýjasta hefti Peningamála áætlaði Seðlabankinn að halli á viðskiptajöfnuð verði um 1% af landsframleiðslu í ár.
Hærra raungengi ætti að stuðla að auknum innflutningi og draga úr útflutningi. „Það ýtir náttúrulega undir hallarekstur gagnvart útlöndum. Það er engin spurning,“ segir Yngvi.
Að sama skapi ætti hækkun raungengis krónunnar ein og sér að leiða til minni hagvaxtar. Minni vöxtur í framleiðslu hafi í för með sér að hlutfallslegur launakostnaður eykst sem bitnar á framleiðni.
„Ég reikna með að fyrirtæki þurfi þá að bregðast við því með einhvers konar hagræðingu í því skyni að viðhalda framleiðni.“
Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn.