Fasteignafélagið Heimar og Smáralind hafa skrifað undir samning við þrettán veitingaaðila um opnun veitingastaða á nýju veitingasvæði í austurenda Smáralindar sem opnar í haust, að því er kemur fram í tilkynningu.
Af þeim þrettán veitingastöðum sem opna á nýja veitingasvæðinu eru tíu nýir í Smáralind og nokkrir sem hingað til hafa aðeins verið í miðbæ Reykjavíkur. Þá kemur veitingastaðurinn Hjá Höllu, sem margir þekkja frá Grindavik og flugstöðinni, auk tveggja alveg nýrra veitingastaða.
Veitingastaðirnir sem verða hluti af nýja veitingasvæðinu í Smáralind eru: Djúsí Sushi, Funky Bhangra, La Trattoria, Hjá Höllu, Fuego, Neo pizza, Yuzu borgarar, Gelato ís, Sbarro, Serrano, Subway, Top wings og 5 Spice by XO.
„Við höfum fengið til liðs við okkur farsælustu veitingaaðila landsins til að sjá um matarupplifunina á þessu nýja svæði í Smáralind. Svæðið sjálft er hannað af Javier Bootello og hans fólki hjá Basalt arkitektum og hugsunin er að þarna geti fólk komið saman, notið góðs matar og átt huggulega stund í fallegu umhverfi hvort sem það er í hádeginu eða á kvöldin,” segir Baldur Már Helgason, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Heimum.
Búist er við að framkvæmdum ljúki á næstu vikum og að hægt verði að opna nýju veitingastaðina um mánaðarmótin október/nóvember.






