Starfsmenn í flestum geirum í Argentínu hafa farið í allsherjarverkfall til að mótmæla niðurskurðarstefnu stjórnvalda. Öllu innanlandsflugi hefur þá verið aflýst og hafa lestarferðir legið niðri bæði í Buenos Aires og öðrum hlutum landsins.
Á vef BBC segir að þetta sé þriðja allsherjarverkfallið sem verkalýðsfélög í Argentínu hafa boðað til síðan Javier Milei tók við forsetaembættinu í lok árs 2023.
Síðan þá hefur forsetinn kynnt harðar efnahagsaðgerðir til að takast á við óðaverðbólgu í landinu. Á hans tíð hefur verðbólgan lækkað úr 200% niður í 60% en samkvæmt verkalýðsfélögum landsins hafa viðkæmustu hópar samfélagsins þurft að greiða fyrir það.
Milei hefur meðal annars dregið úr opinberum niðurgreiðslum á flutningum, eldsneyti og orku ásamt því að reka tugþúsundir opinberra starfsmanna og loka ríkisskrifstofum.
Mótmælin koma á sama tíma og argentínska ríkisstjórnin bíður til að sjá hvort hún nái að tryggja sér 20 milljarða dala lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Argentína skuldar AGS nú þegar 44 milljarða dala en Scott Bessent, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, mun ferðast til Buenos Aires eftir helgi til að styðja efnahagsáætlun forsetans.