Félagið Helgi Einar Nonni ehf., rekstrarfélag Golfskálans, velti tæplega 1,1 milljarði króna árið 2023 en um var að ræða 20% aukningu frá fyrra ári og hafa tekjur félagsins aldrei verið meiri. Árið 2021 námu rekstrartekjur 593 milljónum og hefur velta félagsins því nánast tvöfaldast á tveimur árum.
Hagnaður hefur verið af rekstrinum frá árinu 2014 en samanlagður hagnaður 2014-2023 nemur 450 milljónum, þar af 142 milljónir árið 2023 og 110 milljónir 2022.Lagt var til að 150 milljónir yrðu greiddar í arð vegna ársins 2023.
Golfskálinn rekur ferðaskrifstofu samhliða versluninni en umsvif fyrirtækisins hafa aukist til muna. Frá árinu 2015 hafa tekjur félagsins tífaldast en veltan hefur aukist á hverju ári, að undanskildu árinu 2020.
Félagið er í jafnri eigu stofnendanna Ingibergs Jóhannssonar og Hans Vihtori Hentinen, sem jafnframt er framkvæmdastjóri, en Adam Ingibergsson, sonur Ingibergs, er verslunarstjóri Golfskálans.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 15. janúar 2025.