Nærri þrír af hverjum tíu Svíum segjast sniðganga bandarískar vörur í mótmælaskyni og hafa fjórir af hverjum tíu íhugað að gera það. Þetta kemur fram á fréttasíðu SVT en þar er vitnað í könnun sem gerð var af fyrirtækinu Verian.
Sniðgangan nær yfir allt frá Tesla, Netflix og Coca-Cola en um 10 prósent sögðust sniðganga allar vörur frá Bandaríkjunum og 19% sögðust sniðganga ákveðnar vörur.
Þá hafa t.d. meira en 65 þúsund manns hafa skráð sig í sænskan Facebook-hóp sem hvetur til slíkra aðgerða.
Samkvæmt könnun Verian segjast margir Svíar hikandi við að kaupa bandarískar vörur vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar undir stjórn Donalds Trumps. Þá nefna Svíar yfirlýsingar Trumps um Úkraínu, viðbótartolla og stefnubreytingar á öryggisstefnu Evrópu.
Alls sögðust 29% Svía forðast það að kaupa bandarískar vörur í mótmælaskyni undanfarinn mánuð. Lítill munur er meðal kynja en hlutfallið er hæst í aldurshópnum 65 til 84 ára þar sem 15% segjast hafa alfarið sleppt því að kaupa bandarískar vörur.