Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur gert samning við Samtökin '78 um stuðning við fræðslu- og ráðgjöf samtakanna. Stuðningurinn nemur 25 milljónum króna til loka þessa árs.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að markmið samningsins sé að þróa vandað kennsluefni og námskeið sem beinist sérstaklega að fagaðilum í skólastarfi.
Þá verði komið upp tengiliðaneti í grunn- og framhaldsskólum landsins um hinseginleikann og veitt fræðsla og ráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum um hinsegin málefni. Jafnframt muni samtökin sinna þróunarstarfi á landsbyggðinni.
Um er að ræða þriðju undirritun samnings um fjárstuðning við Samtökin '78 sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa tilkynnt um á undanförnum tólf mánuðum.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, tilkynnti í byrjun árs um að hann hefði veitt Samtökunum ´78 styrk að upphæð 20 milljónir króna til að sinna ráðgjöf fyrir hinsegin fólk, aðstandendur þess og þau sem ekki eru viss um eigin hinseginleika.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra undirritaði fyrir rúmu ári nýjan þjónustusamning sem fól í sér að árlegt framlag ráðuneytisins til Samtakanna ´78 er aukið um 25 milljónir króna, úr 15 í 40 milljónir. Samhliða því veitti forsætisráðuneytið samtökunum 15 milljóna króna einskiptis framlag að fjárhæð 15 milljónir króna til að vinna gegn bakslagi gegn hinsegin fólki í samfélaginu.
Í tilkynningu sem forsætisráðuneytið sendi frá sér í október sl. kemur fram að umræddur þjónustusamningur væri í gildi til ársloka 2023 en að viðræður um áframhaldandi þjónustusamning til næstu ára væru fyrirhugaðar. Gert væri áfram ráð fyrir 40 milljóna króna árlegum styrk til samtakanna.
Rekstrartekjur Samtakanna ´78 námu 124,6 milljónum króna árið 2022, samanborið við 75,2 milljónir árið 2021. Samtökin voru rekin með 13,7 milljóna afgangi árið 2022 eftir 11 milljóna tap árið áður.
Opinber framlög jukust úr 47,3 milljónum í 75 milljónir á milli áranna 2021 og 2022. Til samanburðar er útlit fyrir að framlög frá ríkinu verði a.m.k. 85 milljónir króna í ár miðað við framangreinda samninga. Auk þess hafa sveitarfélög verið með eigin samninga við samtökin.