Endurgreiddur kostnaður alþingismanna vegna utanlandsferða á síðasta ári nam rúmlega 48 milljónum króna á verðlagi dagsins í dag. Kostnaðurinn dróst saman um 35% frá fyrra ári er þingmenn ferðuðust alls út fyrir landsteinana fyrir tæplega 74 milljónir króna. Fyrir utan heimsfaraldursárin 2020 og 2021 hefur kostnaðurinn ekki verið lægra frá árinu 2017, er hann nam tæplega 31 milljón á gengi dagsins í dag.
Dagpeningar og flugmiðakaup voru sem áður bróðurpartur erlends ferðakostnaðar þingmanna og námu rúmlega 40 milljónum króna í fyrra. Árið áður nam umræddur kostnaður tæplega 60 milljónum króna og dróst því saman um þriðjung á milli ára.
Á verðlagi dagsins í dag nam gisti- og fæðiskostnaður 7,7 milljónum króna á síðasta ári en kostnaðurinn dróst saman um 44% frá fyrra ári er hann nam 13,8 milljónum króna. Gisti- og fæðiskostnaðurinn í fyrra var þónokkuð undir meðaltali slíks kostnaðar frá árinu 2007 sem nemur 10,6 milljónum króna. Sé horft til kostnaðar við uppihald, þ.e. dagpeninga og gisti- og fæðiskostnaðar, dróst hann saman um 42%, úr 46,2 milljónum í 26,9 milljónir.
Á vef Alþingis segir að á ferðum alþingismanns erlendis á vegum Alþingis sé greiddur hótelkostnaður samkvæmt reikningi og 50% dagpeninga samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.