Toyota á Íslandi og TK bílar, systurfélög Toyota-umboðsins á Íslandi, högnuðust samanlagt um 1.151 milljón króna á síðasta ári, samanborið við 1.753 milljónir árið 2023.

Salan dróst saman um tæplega þriðjung á milli ára. Heildartekjur TK bíla námu 16,9 milljörðum og drógust saman um 32% milli ára. Velta Toyota á Íslandi nam 15 milljörðum króna og dróst saman um 31,6% milli ára.

Bróðurpartur veltu samstæðunnar rennur í gegnum bæði félögin en þar sem ekki er um samstæðureikninga að ræða liggur sú tala ekki fyrir.

Í skýrslu stjórnar Toyota á Íslandi er bent á að samdráttur hafi verið í eftirspurn eftir nýjum bifreiðum á árinu 2024.

Þannig voru nýskráningar Toyota bifreiða samtals 1.981 á árinu samanborið við 3.201 árið áður. Í skýrslu stjórnar TK bíla kemur fram að félagið hafi selt rétt yfir þúsund nýjar Toyota-bifreiðar samanborið við meira en 2.200 árið áður.

Þess má geta að nýskráning fólksbíla árið 2024 dróst saman um 42% samanborið við árið 2023 en alls voru nýskráðir 10.243 nýir fólksbílar á árinu samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu.

Hálfur milljarður í arð

Toyota á Íslandi mun greiða út hálfan milljarð króna til hluthafa vegna rekstrarársins 2024. Til samanburðar greiddu félögin samanlagt milljarð króna til hluthafa árið 2024 vegna rekstrarársins 2023 og 2 milljarða króna árið þar áður.

Félögin eru í eigu UK fjárfestinga sem er í jafnri eigu Úlfars Steindórssonar, forstjóra umboðsins, og Kristjáns Þorbergssonar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.