Þriðjungur kvenna á Íslandi hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað einhvern tímann á lífsleiðinni samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á vegum vísindamanna Háskóla Íslands. Sagt er frá þeim í nýjasta hefti vísindatímarits The Lancet Public Health og byggjast þær á svörum 15.799 kvenna á vinnufærum aldri, sem eru fengin úr rannsóknarverkefninu Áfallasaga kvenna sem vísindamenn við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands standa að.
Þá sýnir rannsóknin enn fremur að konur sem starfa á opinberum vettvangi og í ferðaþjónustu eru mest útsettar fyrir kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað. Niðurstöðurnar sýna einnig að kynferðisleg áreitni og ofbeldi gagnvart konum sé einnig algengara á vinnustöðum með vaktafyrirkomulagi og óreglulegum og löngum vinnutíma.
„Konur sem vinna á slíkum stöðum eru líkegri til þess að vera einar að störfum með mögulegum gerendum og því engin vitni að áreitninni eða ofbeldinu. Að þessu þarf að huga þegar öryggi á vinnustöðum er til skoðunar,“ bendir Edda Björk Þórðardóttir, lektor við Háskóla Íslands, á.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eru yngri konur líklegri til þess að greina frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á lífsleiðinni.
"Niðurstöður rannsóknarinnar í The Lancet Public Health eru ekki síst athyglisverðar þegar horft er til þess að Ísland hefur um langt árabil verið í efsta sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir þau lönd þar sem kynjajafnrétti er mest. Aðstandendur rannsóknarinnar benda á að niðurstöðurnar sýni að þörf sé á frekari stefnumótun í samfélaginu sem miðar að því að auka öryggi kvenna á vinnustað," segir í fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands.