Úrvalsvísitalan lækkaði um hálft prósent í 4,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Fimmtán félög aðalmarkaðarins lækkuðu og sex hækkuðu.

Þriðjungur veltunnar, eða um 1,4 milljarðar, var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um 0,3%. Gengi Arion, sem birtir ársuppgjör á eftir, stendur nú í 175,5 krónum á hlut og er um 5% hærra en í byrjun árs.

Amaroq Minerals lækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins en hlutabréfaverð félagsins féll um 1,8% í 52 milljóna veltu. Gengi málmleitarfélagsins stendur nú í 196 krónum á hlut og er enn um 7,4% hærra en í upphafi árs.

Auk Amaroq lækkaði hlutabréfaverð Alvotech og Brims um meira en eitt prósent í viðskiptum dagsins.

Hlutabréf Icelandair hækkuðu um 1,9% í 269 milljóna veltu og stendur gengi flugfélagsins nú í 1,36 krónum á hlut.