Framtakssjóðirnir Horn III og Horn IV, í rekstri Landsbréfa, högnuðust samanlagt um 2,9 milljarða króna á síðasta ári.
Horn III, sem hóf göngu sína árið 2016, hagnaðist um 758 milljónir króna samanborið við 430 milljónir árið áður.
Eignir sjóðsins lækkuðu úr 6,5 milljörðum í 5,2 milljarða á milli ára, en sjóðurinn seldi 40% hlut sinn í Bílaleigu Flugleiða, sérleyfishafa Hertz á Íslandi, til EGG, móðurfélags bílaumboðsins BL fyrir 2,1 milljarð króna. Því má áætla að EGG hafi keypt Hertz á tæplega 5,3 milljarða króna.
Eignasafn Horns III samanstendur nú af 100% hlut í rútusamstæðunni Pac1501 og 50% hlut í Líflandi. Horn III skrifaði á dögunum undir kaupsamning um sölu á hlutnum í Líflandi til Þóris Haraldssonar, sem fyrir átti helming hlutafjár í félaginu.
Horn IV, sem hóf göngu sína árið 2021, hagnaðist um 2,1 milljarð króna samanborið við 279 milljóna tap árið áður. Eignir hækkuðu úr 12,6 milljörðum í 14,8 milljarða milli ára vegna jákvæðra gangvirðisbreytinga. Sjóðurinn nýtti kauprétt á árinu að auknum hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu GoPro. Jókst hluturinn þar með úr 35% í 41%.
Á sama tíma dróst hlutur félagsins í Styrkási, móðurfélagi Skeljungs, Kletts og Stólpa, saman úr 30% í 27% milli ára. Sjóðurinn á áfram 22% hlut í S4S, 40% í Eðalfangi, 46% í FW Horni, sérhæfðum sjóði í stýringu Landsbréfa um sameiginlega fjárfestingu í landeldisfyrirtækinu First Water, og 45% í Rea, móðurfélagi Airport Associates.
Hermann Már Þórisson og Steinar Helgason eru framkvæmdastjórar Horns III og Horns IV.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér og blaðið hér.