Tilboð félagsins M3 fasteignaþróunar ehf. í byggingarrétt við Vesturbugt við Gömlu höfnina í Reykjavík var samþykkt af borgarráði í gær.
Lóðirnar í Vesturbugt eru Hlésgata 1 og 2. Heimilt er að byggja allt að 177 íbúðir í 2-5 hæða húsum auk bílakjallara og um 1.420 fermetra af atvinnuhúsnæði.
Reykjavíkurborg rifti samningi við fyrri lóðarhafa sem sátu aðgerðarlausir í sjö ár.
Samkvæmt tilkynningu frá borginni var byggingarrétturinn seldur á rúmlega 2,8 milljarða og álögð gatnagerðargjöld verða um 330 milljónir. Greiðslur til Reykjavíkurborgar nema því um 3,2 milljörðum króna.
„Að lágmarki 25% íbúða á byggingarreitnum eiga að vera leiguíbúðir samkvæmt deiliskipulagi. Þar af eiga Félagsbústaðir kauprétt á allt að 14 íbúðum og Félagsstofnun stúdenta á kauprétt á allt að 50 íbúðum,“ segir í tilkynningu borgarinnar.
Samkvæmt borginni stendur til að framkvæmdir hefjist á næsta ári en í sumar var greint frá því að framkvæmdir myndu standa yfir í 3-4 ár.
„Það er frábært að geta nú loksins hafið hönnun og byrjað að skipuleggja uppbyggingu á þessum einstöku byggingarreitum við vesturhöfnina við miðborg Reykjavíkur,“ segir Örn V. Kjartansson framkvæmdastjóri M3 fasteignaþróunar ehf.
„Segja má að þetta sé síðasti þéttingarreiturinn í miðborginni og í raun einstakt að geta boðið íbúðir til sölu þetta nálægt gömlu höfninni í Reykjavík. Ef vel gengur með hönnun má gera ráð fyrir að framkvæmdir hefjist snemma vors á næsta ári“.