Velta á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag nam 6,7 milljarða króna en þar af var velta með hlutabréf Íslandsbanka 2,9 milljarðar. Gengi bankans lækkaði lítillega í viðskiptum dagsins og stendur nú í 124,4 krónum á hlut eða um 6,3% yfir söluverði í söluferli Bankasýslunnar á 52,7 milljarða króna hlut ríkisins fyrr í vikunni en 2% yfir lokagengi bankans á mánudaginn.
Skeljungur hækkaði mest allra félag eða um 1,9% og stendur gengi félagsins nú í 16 krónum á hlut og hefur aldrei verið hærra. Mikil velta var með bréf félagsins í dag eða um 769 milljónir króna en alls voru viðskipti með 48 milljónir að nafnverði, eða sem nemur um 2,5% af heildarhlutafé félagsins.
Þá voru einnig mikil viðskipti með hlutabréf fasteignafélagsins Reita sem lækkuðu um 1% í nærri 800 milljóna veltu í dag. Gengi Reita stendur nú í 92 krónum, sem er 8% hærra en frá áramótum. Fasteignafélagið Reginn lækkaði einnig um 1% í dag.