Víðir Kristófersson, öryggisstjóri Arion banka segir í samtali við Viðskiptablaðið að fjöldi netsvika hafi verið nokkuð stöðugur síðust vikur og mánuði. Hann segir að mikil sveifla hafi hins vegar átt sér stað á Messenger fyrir nokkrum mánuðum síðan en eftir því sem fólk varð meira meðvitað jafnaðist sú sveifla út.
„Aðferðir netsvikaranna eru fjölbreyttar, allt frá hinum svokölluðu DHL- eða Pósturinn-svikum þar sem verið er blekkja fólk til að smella á hlekki og gefa upp allar kortaupplýsingar og staðfesta kaup með kortunum, yfir í Lögreglubréfin þar sem fólki er hótað málsókn ef það millifærir ekki strax.“
Hann segir það einnig algengt að netsvikarar blekki fólk til að samþykkja innskráningar með rafrænum skilríkjum inn í sinn eigin heimabanka. Allar þessar aðferðir byggja á því að netsvikarar blekki fólk til að afhenda upplýsingar og samþykkja í kjölfarið aðgerðir þeirra.
Víðir segir að það séu ekki til nákvæmar tölur um hve margir láta blekkja sig í slíkum netsvindlum en í þeim tilfellum þar sem hundruð einstaklinga fá skilaboð á Messenger eru rúmlega 8 manns sem láta leiða sig áfram í spjall. Fimm þeirra átta sig á því að þarna er svikari á ferð en 3 láta blekkja sig og gefa upp kortaupplýsingar og samþykkja síðan greiðslur sem framkvæmdar eru.
„Annað dæmi er mikill fjöldi SMS skilaboða sem send eru í nafni bankanna og annarra þar sem í sumum tilfellum enginn lætur blekkjast,“ segir Víðir.