Festi og Hagar, eigendur Olíudreifingar, hefur borist óskuldbindandi tilboð í innviðafélagið. Smásölufyrirtækin hafa lagt mat á tilboðin og ákveðið að bjóða þremur aðilum að halda áfram í söluferlinu og veita þeim aðgengi að frekari upplýsingum.

Þetta kemur fram í tilkynningum Festi og Haga til Kauphallarinnar. Festi, sem er móðurfélag N1, á 60% hlut í Olíudreifingu, og Hagar, móðurfélag Olís, á 40% hlut í innviðafélaginu.

„Ekki liggur fyrir nein vissa á þessu stigi hvort framangreint ferli muni leiða til skuldbindandi tilboða í Olíudreifingu, sem gæti lokið með sölu á félaginu,“ segir í tilkynningum Haga og Festi.

Félögin hófu í lok september formlegt söluferli á Olíudreifingu. Fyrir­tækja­ráð­gjöf Ís­lands­banka um sölu­ferlið.

Velta Olíudreifingar nam tæplega 5,5 milljörðum króna árið 2023 og félagið hagnaðist um 343 milljónir. Eignir innviðafélagsins voru bókfærðar á 4,9 milljarða í árslok 2023 og eigið fé var um 2,4 milljarðar.

Festi og Hagar greindu frá því í desember í fyrra að þau væru að kanna fram­tíðar­mögu­leika hvað varðar eignar­hluti fé­laganna í Olíu­dreifingu ehf., Elds­neytis­af­greiðslunni á Kefla­víkur­flug­velli ehf. (EAK) og EBK ehf.