Samkvæmt greiningardeild Íslandsbanka vekur það athygli hversu stöðug krónan er í ljósi verulegs halla á utanríkisviðskiptum frá ársbyrjun.
Vöruskiptahalli í mars nam tæplega 39 milljörðum króna samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofunnar.
Var það heldur minni halli en í febrúar en þó í meira lagi miðað við undanfarin misseri að jafnaði.
Minni innflutningur, sér í lagi á fjárfestingarvörum, skýrir heldur hóflegri halla í mars en í febrúar á meðan litlar breytingar urðu útflutningsmegin milli mánaða.
Á upphafsfjórðungi síðasta árs var afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd ríflega 18 milljarðar króna en lausleg áætlun Íslandsbanka bendir til þess að þjónustuafgangurinn reynist helmingi minni á fyrsta fjórðungi þessa árs.
Vöruskiptahalli á fjórðungnum gæti því látið nærri að samanlagður halli á vöru- og þjónustujöfnuði hafi verið af svipaðri stærðargráðu og á lokafjórðungi síðasta árs þegar hann nam tæpum 70 milljörðum króna, segir í greiningu Íslandsbanka.
Af þessum sökum segir Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur bankans að það sé athyglisvert hversu stöðug krónan hefur verið en hann segir þrjár aðstæður liggja þar að baki.
„Í fyrsta lagi er líklegt að talsverður hluti af þeim mikla innflutningi á fjárfestingarvörum sem einkennt hefur undanfarinn vetur sé fjármagnaður af erlendum aðilum og hafi því ekki leitt til samsvarandi gjaldeyriskaupa á hérlendum gjaldeyrismarkaði,” skrifar Jón Bjarki.
Þá hefur dregið verulega úr gjaldeyriskaupum lífeyrissjóða það sem af er ári. Í nýlega útgefnu riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika, kemur til að mynda fram að sjóðirnir keyptu einungis gjaldeyri sem nam 2,7 ma.kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins samanborið við 7 ma.kr. meðalkaup á gjaldeyri í mánuði hverjum árin tvö þar á undan.
Þar bendir bankinn á að uppgjör vegna kaupa JBT á Marel hafi leitt til ríflegrar greiðslu til lífeyrissjóðanna í hlutabréfum og erlendum gjaldeyri.
„Þá hefur innflæði tengt fjármagnsjöfnuði verið umtalsvert. Í Fjármálastöðugleika kemur til að mynda fram að eign erlendra aðila í ríkisbréfum jókst um tæpa 7 ma.kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Raunar kom fram í nýlega birtu mánaðaryfirliti Lánamála að slíkir aðilar minnkuðu hreina ríkisbréfastöðu sína um 2 ma.kr. í mars auk þess sem ríkisvíxlaeign þeirra minnkaði um 2,3 ma.kr. á sama tíma. Samtals nam eign erlendra aðila í ríkisbréfum og -víxlum tæpum 112 ma.kr. um síðustu mánaðamót,” skrifar Jón Bjarki.
Með öðrum orðum hefur viðskiptahallinn undanfarið verið fjármagnaður að verulegum hluta með beinni og óbeinni fjárfestingu erlendra aðila inn í landið á sama tíma og útflæði um fjármagnsjöfnuðinn vegna fjárfestinga innlendra aðila erlendis hefur verið með minnsta móti.