Sam­kvæmt greiningar­deild Ís­lands­banka vekur það at­hygli hversu stöðug krónan er í ljósi veru­legs halla á utan­ríkis­við­skiptum frá árs­byrjun.

Vöru­skipta­halli í mars nam tæp­lega 39 milljörðum króna sam­kvæmt ný­lega birtum tölum Hag­stofunnar.

Var það heldur minni halli en í febrúar en þó í meira lagi miðað við undan­farin misseri að jafnaði.

Minni inn­flutningur, sér í lagi á fjár­festingar­vörum, skýrir heldur hóf­legri halla í mars en í febrúar á meðan litlar breytingar urðu út­flutnings­megin milli mánaða.

Á upp­hafs­fjórðungi síðasta árs var af­gangur af þjónustu­við­skiptum við útlönd ríf­lega 18 milljarðar króna en laus­leg áætlun Ís­lands­banka bendir til þess að þjónustu­af­gangurinn reynist helmingi minni á fyrsta fjórðungi þessa árs.

Vöru­skipta­halli á fjórðungnum gæti því látið nærri að saman­lagður halli á vöru- og þjónustujöfnuði hafi verið af svipaðri stærðar­gráðu og á loka­fjórðungi síðasta árs þegar hann nam tæpum 70 milljörðum króna, segir í greiningu Ís­lands­banka.

Af þessum sökum segir Jón Bjarki Bents­son aðal­hag­fræðingur bankans að það sé at­hyglis­vert hversu stöðug krónan hefur verið en hann segir þrjár aðstæður liggja þar að baki.

„Í fyrsta lagi er lík­legt að tals­verður hluti af þeim mikla inn­flutningi á fjár­festingar­vörum sem ein­kennt hefur undan­farinn vetur sé fjár­magnaður af er­lendum aðilum og hafi því ekki leitt til sam­svarandi gjald­eyris­kaupa á hér­lendum gjald­eyris­markaði,” skrifar Jón Bjarki.

Þá hefur dregið veru­lega úr gjald­eyris­kaupum líf­eyris­sjóða það sem af er ári. Í ný­lega út­gefnu riti Seðla­bankans, Fjár­málastöðug­leika, kemur til að mynda fram að sjóðirnir keyptu einungis gjald­eyri sem nam 2,7 ma.kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins saman­borið við 7 ma.kr. meðal­kaup á gjald­eyri í mánuði hverjum árin tvö þar á undan.

Þar bendir bankinn á að upp­gjör vegna kaupa JBT á Marel hafi leitt til ríf­legrar greiðslu til líf­eyris­sjóðanna í hluta­bréfum og er­lendum gjald­eyri.

„Þá hefur inn­flæði tengt fjár­magns­jöfnuði verið um­tals­vert. Í Fjár­málastöðug­leika kemur til að mynda fram að eign er­lendra aðila í ríkis­bréfum jókst um tæpa 7 ma.kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Raunar kom fram í ný­lega birtu mánaðar­yfir­liti Lána­mála að slíkir aðilar minnkuðu hreina ríkis­bréfastöðu sína um 2 ma.kr. í mars auk þess sem ríkis­víxla­eign þeirra minnkaði um 2,3 ma.kr. á sama tíma. Sam­tals nam eign er­lendra aðila í ríkis­bréfum og -víxlum tæpum 112 ma.kr. um síðustu mánaðamót,” skrifar Jón Bjarki.

Með öðrum orðum hefur við­skipta­hallinn undan­farið verið fjár­magnaður að veru­legum hluta með beinni og óbeinni fjár­festingu er­lendra aðila inn í landið á sama tíma og út­flæði um fjár­magns­jöfnuðinn vegna fjár­festinga inn­lendra aðila er­lendis hefur verið með minnsta móti.