Bókfært virði eigna OA eignarhaldsfélags, sem er í jafnri eigu Andra Þórs Guðmundssonar, forstjóra Ölgerðarinnar, og Októs Einarssonar stjórnarformanns, tvöfaldaðist á síðasta ári og nam ríflega 3,3 milljörðum króna. Eigið fé jókst úr 710 milljónum í 3 milljarða.

Breytingin skýrist einkum af því að eignarhlutur í Ölgerðinni var færður á gangvirði í kjölfar sölu OA á 10% hlut í fyrirtækinu á síðasta ári sem leiddi af sér 1,1 milljarðs virðishækkun. Auk þess var 689 milljóna hagnaður af sölunni en OA greiddi í kjölfarið út 590 milljónir króna með lækkun hlutafjár. Félagið hagnaðist því um 1,8 milljarða.

OA átti 16,1% hlut í Ölgerðinni eftir söluna sem var bókfærður á 3,2 milljarða í lok síðasta árs. Félagið seldi 4,8% hlut fyrir 1,3 milljarða í nýafstöðnu útboði fyrir skráningu Ölgerðarinnar í dag. OA fer áfram með 11,3% hlut í félaginu sem er um 3,2 milljarðar að markaðsvirði.

Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.