Stjórn Sýnar hefur samþykkt skipulagsbreytingar sem miða að því að auka skilvirkni í rekstri félagsins. Við breytingarnar koma þrír aðilar inn í framkvæmdastjórnina, þar á meðal nýr fjármálastjóri og mannauðsstjóri.

Sýn greinir frá þessu í kauphallartilkynningu í dag.

Eðvald Gíslason tekur við sem framkvæmdastjóri fjármála en hann tekur við stöðunni af Kristínu Friðgeirsdóttur sem lét af störfum fyrir rúmum mánuði.

Eðvald starfaði áður hjá Kviku þar sem hann var forstöðumaður hagdeildar en hann hefur einnig starfað sem framkvæmdastjóri hjá Greiðslumiðlun Íslands og við greiningar hjá NextCODE, CCP og Nykredit banka í Danmörku

Valdís Arnórsdóttir verður þá framkvæmdastjóri mannauðs en hún hefur verið mannauðsstjóri Sýnar frá janúar 2024. Hún kom til Sýnar frá Marel þar sem hún starfaði í 11 ár, lengst af sem stjórnandi í alþjóðlegu mannauðsteymi ásamt því að leiða krísuteymi fyrirtækisins

Gunnar Guðjónsson verður framkvæmdastjóri upplýsingatækni og stjórnarformaður Endor sem er dótturfélag Sýnar. Hann er einn af stofnendum Endor og hefur verið framkvæmdastjóri þess frá stofnun 2015.

Nýtt skipurit Sýnar.

Fyrir eru í framkvæmdastjórn Sýnar Sesselía Birgisdóttir framkvæmdastjóri Vodafone og Páll Ásgrímsson framkvæmdastjóri lögfræðisviðs. Þá átti Hulda Hallgrímsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri nýsköpunar og rekstrar hjá Sýn sæti í stjórn en hún lét af störfum í síðasta mánuði samhliða því að sviðið var lagt niður.

Ný markaðs- og sjálfbærnideild

Starfsemi móðurfélagsins verður héðan í frá skipt í fjórar rekstrareiningar - Stöð 2, Vefmiðla og útvarp, Vodafone og Innviði - og stoðsviðin verða fjögur - Fjármál, Lögfræðisvið, Mannauður og Upplýsingatækni - Endor.

Sömuleiðis hefur ný sameiginleg Markaðs-, og sjálfbærnideild Sýnar verið stofnuð en fréttastofa vinnur eftir sem áður þvert á alla miðla félagsins.

„Við leggjum ríka áherslu á að einfalda ákvarðanatöku og boðleiðir í rekstrinum og er breytingin á skipulaginu liður í þeirri vegferð. Skýr sjálfbærnivegferð, helgun mannauðs og öflug upplýsingatækni er grundvöllur að framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina Sýnar. Markmið þessara breytinga er aukin verðmætasköpun og að styrkja enn frekar ímynd allra vörumerkja Sýnar sem eru afar verðmæt,“ segir Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar.