Þrír stærstu lífeyrissjóðirnir í hluthafahópi Origo – Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE), Stapi og Birta – gengu að valfrjálsu tilboði framtakssjóðsins Umbreytingar II í hlutafé Origo. Samtals seldu sjóðirnir þrír í Origo fyrir tæplega 3,1 milljarð króna.
LIVE seldi allan 10,1% hlut sinn í Origo fyrir um 1,4 milljarða króna og Stapi seldi 7,2% hlut sinn fyrir tæplega einn milljarð króna, samkvæmt flöggunartilkynningum. LIVE hafði þegar selt um 3% hlut í Origo til Umbreytingar II í desember fyrir um 424 milljónir.
Birta, sem var næst stærsti hluthafi Origo með 10,9%, seldi 4,5% hlut í upplýsingatæknifyrirtækinu fyrir um 637 milljónir króna. Birta á því enn um 6,4% hlut í Origo að andvirði 909 milljónum króna ef miðað er við 101 krónu tilboðsverð Umbreytingar II.
Eignarhlutur Birtu, LIVE og Stapa í Origo fyrir og eftir tilboðið
Söluverð (m.kr.) |
637 |
1.427 |
1.017 |
3.081 |
Framtakssjóðurinn, sem er í stýringu hjá Alfa Framtaki, lagði fram valfrjálst tilboð í allt hlutafé Origo á genginu 101 króna í kjölfar þess að hann eignaðist 29,3% hlut í félaginu í desember. Tilboðið stóð hluthöfum Origo til boða frá 19. janúar til 22. febrúar.
Á föstudaginn var greint frá því að um helmingur hluthafa hefðu samþykkt tilboðið. Alls bárust samþykki fyrir um 33,8% hlut í Origo en söluandvirðið var um 4,8 milljarðar króna. Umbreyting II hefur því fest kaup á 63,1% hlut í Origo fyrir hátt í níu milljarða króna frá því í desember.
Rétt eftir sexleytið í dag voru birtar flöggunartilkynningar vegna sölu lífeyrissjóðanna þriggja og kaupa Umbreytingar II. Auk þeirra var eignarhlutur aðeins eins annars hluthafa, Frigusar II ehf., yfir 5% flöggunarskyldumarkinu. Ekki hefur verið birt flöggunartilkynning vegna Frigusar II sem gæti gefið til kynna að félagið gekkst ekki að tilboði Umbreytingar II.
Frigus II, sem er í eigu bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona, kennda við Bakkavör, og Sigurðar Valtýssonar, átti 7,76% hlut í Origo í lok janúar sem er um 1,1 milljarður að markaðsvirði.
Ekki liggur fyrir hvaða að aðrir hluthafar samþykktu tilboðið. Viðskiptablaðið greindi frá því að aðrir lífeyrissjóðir á borð við Festu og Lífsverk, hlutabréfasjóðir og ákveðnir einkafjárfestir hefðu selt hlut sinn í Origo til Umbreytingar II í desember.
Stærstu hluthafar Origo í lok janúar 2023
Í % |