Þrjú stór tóbaksfyrirtæki eiga nú í viðræðum við Juul Labs, stærsta rafrettuframleiðanda Bandaríkjanna, um mögulega yfirtöku eða fjárfestingu, samkvæmt heimildarmönnum Wall Street Journal.
Fyrirtækin þrjú sem um ræðir eru Philip Morris International, Japan Tobacco Group og Altria Group. Altria, sem á 35% hlut í Juul, mat virði rafsígarettuframleiðandans á um einn milljarð dala í október síðastliðnum.
Í umfjöllun WSJ segir að stór tóbaksfyrirtæki horfi nú í auknum mæli til að stækka við sig á bandaríska rafsígarettumarkaðnum. Ríkisstjórn Biden sækist nú eftir því að banna mentólsígarettur og bandarísk stjórnvöld horfa einnig til þess að draga úr magni nikótíns í sígarettum.
Á barmi gjaldþrots eftir deilur við FDA
Juul er með um 27% markaðshlutdeild á bandaríska rafsígarettumarkaðnum. Félagið var á barmi gjaldþrots í fyrra, m.a. eftir deilur við Bandaríska lyfja- og matvælaeftirlitið (FDA) um áframhaldandi markaðsleyfi á vörunum sínum.
FDA hafnaði beiðni Juul markaðsleyfi í júní og skipaði fyrirtækinu að stöðva sölu í Bandaríkjunum en veitti undanþágu eftir að fyrirtækið áfrýjaði niðurstöðunni. FDA er enn með málið til skoðunar. Óvissan í kringum umsóknarferlið hefur gert Juul erfitt fyrir að sækja sér fjármagn til að geta staðið við lagalega ábyrgð sína.
Í lok síðasta árs samþykkti Juul að greiða 1,7 milljónir dala, eða hátt í 250 milljónir króna, í sátt í yfir 5 þúsund málum, sem sneru m.a. að meintri markaðssetningu rafsígarettuframleiðandans til barna og unglinga.