Ríkisstjórnin stefnir að því að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka í þessum mánuði, að því er kemur fram í nýbirtri þingmálaskrá.
Viðskiptablaðið greindi frá því um miðjan janúarmánuð að nýtt frumvarp um söluferlið á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka væri í vinnslu. Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra vildi ekki gefa upp á þeim tímapunkti hvaða breytingar á söluferlinu væru áformaðar en tók þó fram að áfram væri stefnt að almennu útboði.
Í þingmálaskránni segir að með frumvarpinu verði lagðar til endurbætur á lögunum. Annars vegar með smávægilegum breytingum á lágmarkstíma auglýsingar útboðsins og hins vegar með nýrri tilboðsbók C.
„Með breytingunum er stefnt að því að auka líkurnar á aðkomu stórra fagfjárfesta og þannig auka eftirspurn og vægi meginmarkmiðs laganna um hagkvæmni.“
Ekki er útskýrt nánar hvað felst í hinni nýju tilboðsbók. Venjan í almennum hlutafjárútboðum sem þessum er að bjóða upp á tvær tilboðsbækur. Annars vegar tilboðsbók A, fyrir tilboð undir tiltekinni fjárhæð þar sem almennum fjárfestum býðst fast verð. Hins vegar tilboðsverð B fyrir stærri fjárfesta þar sem verðið fer eftir eftirspurn í útboðinu, þó yfirleitt með ákveðnu lágmarksverði.