Á undanförnum áratugum hefur lyfjaiðnaðurinn tekið stakkaskiptum, en í dag er heildarsala á lyfjum í heiminum yfir 1,5 billjónir dala (1.500 milljarðar dala). Sérstaklega hefur eftirspurn eftir líftæknilyfjum aukist til muna, sem nú eru um 40% af heildarlyfjasölu í Bandaríkjunum og yfir 30% Evrópu.

Um 60% af fjármagni til að þróa ný lyf, sem koma á markað á næstu tíu árum, eru vegna líftæknilyfja. Því gæti hlutfall líftæknilyfja af heildarsölu lyfja í heiminum farið upp í 50%, og jafnvel 60%, á næstu tveimur áratugum.

Róbert Wessman, forstjóri Alvotech, segir mikil tækifæri felast í líftæknilyfjahliðstæðum. Verð á líftæknilyfjum á borð við Humira geti oft verið á bilinu 100 til 150 þúsund dollara fyrir hvern sjúkling á ári, sem geri þau óaðgengileg fyrir marga.

„Við stefnum á að selja 1,3 milljónir eininga af Simlandi, hliðstæðu Humira, til Bandaríkjanna í ár og sjáum fram á verulega aukningu á næsta ári. Á fyrstu sex mánuðum hefur hliðstæðan okkar við Humira náð um 10% markaðshlutdeild í Bandaríkjunum.

Við áætlum að hliðstæður fyrir Humira muni fyrir árslok verða um 30% af heildarsölu á þeim markaði. Því erum við með um einn þriðja hliðstæðumarkaðar Humira,“ segir Róbert.

Þriðjungs hlutdeild og þrjú ný lyf á markað

Alvotech er með ellefu lyf í þróun og tilkynnti í október að Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna, FDA, hefði veitt leyfi til sölu á Selarsdi, hliðstæðu líftæknilyfsins Stelara (ustekinumab), sem notað er til meðhöndlunar á psoriasis, Crohns-sjúkdóm og sáraristilbólgu.

Hliðstæða Alvotech er þegar á markaði í Kanada, Japan og Evrópu og mun koma á bandaríska markaðinn í febrúar.

Samhliða því hefur Alvotech markaðssett hliðstæðu við Humira (adalimumab), sem er nú þegar selt í um þrjátíu löndum, þar á meðal í Bandaríkjunum undir heitinu Simlandi.

FDA veitti markaðsleyfi fyrir Simlandi í febrúar, sem er fyrsta hliðstæðan með háum styrk og útskiptileika við Humira. Hún kom á markað í Bandaríkjunum í maí.

Róbert bætir við að félagið hafi klárað þróun á þremur nýjum líftæknilyfjahliðstæðum. Þær séu hliðstæður við Simponi, sem notað er til meðferðar við sömu sjúkdómum og Stelara, augnlyfinu Eylea, og hliðstæðu við lyfjunum Prolia og Xgeva.

„Við erum því með þrjú ný lyf sem verða samþykkt inn á alla lykilmarkaði í lok næsta árs,“ bætir Róbert við.

Hann segir lyfjaþróun félagsins hafa gengið vonum framar.

„Þetta er líklega sá hluti sem er hvað erfiðast að byggja upp. En við erum búin að klára klínískar rannsóknir á fimm lyfjum sem eru komin á markað eða að koma á markað fyrir lok næsta árs, án nokkurra erfiðleika.“

Nánar er rætt við Róbert í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.