Seðlabankinn beitti nýjum þjóðhagsvarúðartækjum sínum í fyrsta sinn af krafti í gær þegar hann setti ný viðmið um 3% vaxtagólf og 25 ára lánstímaþak fyrir verðtryggð lán við útreikning 35% greiðslubyrðarhámarks sem sett var á í vetur.
Bankinn setti auk þess 5,5% gólf fyrir óverðtryggða vexti og lækkaði hámarksveðhlutfall fyrstu kaupenda í 85%, en hvorug breyting er líkleg til að hafa teljandi áhrif á markaðinn.
Verðtryggðir vextir fást í dag niður í 1,3% breytilegir og tæp 1,5% fastir, sem var 1,35% þar til fyrir stuttu, og lánin eru veitt til allt að 40 ára, þótt fyrir hafi þurft að miða við hámark 30 ár fyrir verðtryggð lán.
Sú greiðslubyrði sem nú skal miða við hækkar með breytingunni um allt að 50 þúsund krónur á mánuði eða ríflega 40%, úr 117 þúsund í 166 þúsund fyrir 35 milljóna króna lán. Er þar miðað við 1,3% lánsvexti og 30 ára hámarksviðmiðið sem fyrir gilti í samanburðinum, en ekki er tekið tillit til hærri viðbótalánsvaxta.
Sé nýja viðmiðið borið saman við raunverulega greiðslubyrði ódýrustu lánanna munar um 100 þúsund krónum í sambærilegu dæmi eða hátt í 80%. Sé þróun ráðstöfunartekna heimilanna bætt inn í myndina og þær bornar saman við þróun útlánavaxta hefur lágmarkshlutfall til að komast inn á markaðinn ekki verið hærra í rúm fjögur ár.
Leiðrétt: Í upphaflegu fréttinni stóð að hlutfallið hefði ekki verið hærra í rúm fjögur ár. Hið rétta er að á því tímabili sem blaðið hefur gögn yfir, sem nær aftur til ársbyrjunar 2018, hefur það aldrei verið hærra sé horft á lægstu vexti allra lánveitenda, en rúm fjögur ár sé aðeins miðað við viðskiptabankana. Lánsupphæðin í dæminu var einnig lækkuð úr 50 milljónum í 35 og tölurnar uppfærðar eftir því, en hlutfallshækkunin helst óbreytt.
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði