Samkvæmt dómúrskurði Héraðsdóms Reykjaness er þrotabúi Air Berlin heimilt að gera fjárnám hjá Isavia til tryggingar á greiðslu skuldar á 1.114.225 evrum eða rúmum 162,5 milljónum króna.
Aðfararbeiðni þrotabúsins byggir á dómi Landsdóms Berlínar (Landgericht Berlin) frá 3. desember 2021 en þar var Isavia dæmt til að greiða þrotabúinu 794.602 evrur ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði.
Þýskir dómstólar komust að þeirri niðurstöðu að Isavia þyrfti að endurgreiða þrotabúi Air Berlin greiðslur sem flugfélagið innti af hendi árið 2017 til að aflétta kyrrsetningu á þotu félagsins á Keflavíkurflugvelli.
Isavia byggði aðalkröfu sína fyrir íslenskum dómstólum á að það væri meginregla íslensks réttar að erlendir dómar hafi ekki bindandi réttaráhrif hér á landi.
Einu undantekningarnar frá þessari meginreglu verði að eiga sér stoð í settum lögum sem beinlínis kveði á um að erlendir dómar séu viðurkenndir hér á landi. Erlenda dóma sé því ekki hægt að fullnusta á Íslandi nema sérstök lög komi til.
Héraðsdómur vísaði til Lúganósamningsins, sem bæði Ísland og Þýskaland eru aðili að, var þó en í honum segir að fullnustu dóma í einkamálum en hann kveður á um sameiginlega lögsögu dómstóla í aðildarríkjum í einkamálum
Samningurinn gildir þó ekki um gjaldþrot, nauðasamninga eða sambærilega málsmeðferð.
Undanþágan um gjaldþrot í Lúganósamningnum gildir þó ekki um mál sem þrotabú höfðar á hendur öðrum.
„Skýra beri hugtakið einkamál vítt og hugtakið gjaldþrot þröngt. Þá sé það viðurkennd regla í íslenskum rétti að hafi gengið dómsúrlausn um skyldu sem fullnægt verði með aðför, hafi sú breyting orðið á lögskiptum aðila að dómsúrlausnin sé sjálfstæður grundvöllur aðfararinnar. Þannig standi sú skylda sem hvílir á gerðarþola ekki lengur í beinum tengslum við þau lögskipti sem búið hafi að baki aðfararheimildinni. Sömu forsendur eigi við um kröfu hans, að dómsúrlausnin standi sjálfstæð óháð lögskiptum aðila,“ segir í dómi Héraðsdóms.
Sýslumanni er því heimilt að gera fjárnám í eignum Isavia til fullnustu peningakröfu Air Berlin en málskot úrskurðar til æðra dóms frestar ekki aðför.
„Hvort krafan sé þegar að fullu tryggð með einhverjum hætti og tengist ágreiningi aðila sem nú er fyrir Landsrétti verður ekkert fullyrt um,” segir í dómi Héraðsdóms en málið tengist deilum Lufthansa og þrotabús Air Berlin fyrir Landsrétti.
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í vor þýska flugfyrirtækið Lufthansa og þrotabú flugfyrirtækisins Air Berlin af kröfum Isavia um vangoldin þjónustugjöld eftir að Lufthansa tók við rekstri Air Berlin eftir gjaldþrot þess árið 2017.
Forsaga málsins er sú að Lufthansa neitaði að greiða reikninga vegna þjónustu á Keflavíkurflugvelli, sem endaði með því að sýslumaðurinn á Suðurnesjum kyrrsetti eina vél fyrirtækisins að beiðni Isavia.
Lufthansa taldi sér aftur á móti óheimilt að greiða kröfuna vegna úrskurðar dómstóls í Köln og því hefði kyrrsetning flugvélar fyrirtækisins verið óheimil.