Verðbólgan hérlendis jókst um 0,3 prósentur á milli mánaða á ársgrundvelli og mældist 10,2% í febrúar. Þá mældist vísitala neysluverðs án húsnæðis 8,9% í sama mánuði.
Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, segir erfitt að spá fyrir um verðhækkanir á innflutningi matvæla, vegna óvissuástandsins sem ríkir nú í Evrópu.
„Eftir umfangsmiklar hækkanir í janúar og febrúar sjáum við að það er að hægjast á boðuðum hækkunum og vonandi jafnvægi að nást í þessum efnum. Sömuleiðis er þróun á hrávörumörkuðum heimsins í rétta átt á flestum sviðum, en slíkar lækkanir skila sér oft hægar,“ segir Ásta.
Hún bætir við að gengisþróun íslensku krónunnar hafi mikið að segja um hvernig verðlagsþróun á innflutningi verður á komandi misserum.
„Stærstur hluti matvöruinnflutnings hjá Krónunni er í dönskum krónum og evru, en félagið hefur dregið úr innflutningi frá Bandaríkjunum vegna óhagstæðra skilyrða.“
Nánar er fjallað um verðbólguna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.