Niðurstöður rannsókna Amaroq Minerals á Nalunaq þróunarsvæðinu á Suður-Grænlandi benda til þess að allt að 116 grömm af gulli sé í hverju tonni af bergi, sem er hæsta gullhlutfall sem félagið hefur fundið í gullæðinni til þessa.
„Niðurstöðurnar benda til þess svæðið sem rannsakað var núna – svokallað „Valley Block“ svæði – sé jafnríkt af gulli og „Target Block“ svæðið, en þar voru sjö tonn af gulli grafin úr jörðu á árum áður,“ segir í tilkynningu Amaroq, sem er skráð á íslenska First North-markaðinn.
Amaroq segir að lokið hafi verið við kjarnaborun í 46 borholum innan tíma- og kostnaðarmarka og í 42 tilvikum hafi tekist að hitta á megingullæðina á svæðinu.
„Það að borun skuli skila árangri í meira en 90% tilvika sýnir enn á ný hve gagnlegt tól berggangamódel Amaroq er þegar kemur að því að vinna gull á Nalunaq svæðinu.“
Þykk belti af gullgrýti á „Mountain Block“ svæðinu
Félagið segir að sýni sem tekin voru við yfirborðsrannsóknir á „Mountain Block“ svæðinu sýni jafnframt fram á að þar sé að finna þykk belti af gullgrýti með gullmagni allt að 98,6 grömm í hverju tonni af bergi.
„Sýnin voru tekin nærri innviðum sem þegar eru til staðar og býður svæðið því upp á ódýrasta möguleikann á umfangsmeiri tilraunavinnslu fyrir árið 2023.“
Fyrsta skrefið í átt að fullri framleiðslu
Í kjölfar þessa rannsóknartímabils er Amaroq nú að skipuleggja næstu skref fyrir þróun Nalunaq. Fyrirtækið hyggst halda áfram með umfangsmeiri tilraunavinnslu innan eins af auðlindasvæðunum með það að markmiði að ná enn frekari staðfestingu á ætluðu gullmagni þar.
„Þessi tilraunavinnsla myndi einnig sýna fram tekjuöflunarmöguleika frá auðlindinni og vera fyrsta skrefið í átt að fullri framleiðslu. Upphaflega var ætlunin að þessi umfangsmeiri tilraunavinnsla færi fram innan „Valley Block“, en niðurstöður þessara rannsókna gefa til kynna að „Mountain Block“ geti verið álitlegur valkostur.“
Fyrirtækið segist eiga í samningaviðræðum við ýmsa námu- og byggingarverktaka.
Eldur Olafsson, forstjóri Amaroq:
„Niðurstöðurnar sýna okkur að Valley Block svæðið er tvisvar sinnum stærra og ríkara af gulli en við héldum áður, sem er mjög spennandi fyrir Amaroq. Rannsóknartímabilið árið 2022 er það árangursríkasta til þessa og hafa sýnt fram á aukið verðmæti í Valley Block svæðinu og hafa einnig sýnt fram á möguleika til námavinnslu í Mountain Block svæðinu. Það sem mestu máli skiptir er að fyrirtækið hefur nú tvo mögulega staði til að hefja umfangsmeiri tilraunavinnslu árið 2023.“