Spálíkan Seðlabanka Íslands bendir til þess að verðbólga verði minni á næstunni en áður hafði verið spáð, samkvæmt Þórarni G. Péturssyni, aðalhagfræðingi Seðlabanka Íslands og framkvæmdastjóra sviðs hagfræði og peningastefnu.
Þórarinn flutti í gær fyrirlestur hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins um þróun og horfur í efnahagsmálum en þar sagði hann meðal annars að hraðari hjöðnun verðbólgu en áður var spáð tengdist meðal annars vanmati á áhrifum einskiptisaðgerða.
„Þróunin er hins vegar í takt við spá DYNIMO-líkans bankans og bendir til þess að verðbólga verði minni á næstunni en spáð var í ágúst,“ segir í fyrirlestri Þórarins.
Verðbólga mældist á ársgrundvelli 5,4% í septembermánuði og hefur ekki verið lægri síðan í desember 2021. Verðbólgan hjaðnaði um 0,9% frá júlí til september.
Verðbólga án húsnæðis mældist 2,8% á ársgrundvelli og hefur lækkað um 1,4% frá því í júlí.
Þórarinn benti jafnframt á að samkvæmt staðgreiðslugögnum hefur hægt jafnt og þétt á fjölgun starfa frá því á fyrri hluta síðasta árs.
Samhliða því hefur dregið úr ráðningaráformum fyrirtækja og lausum störfum fækkar samhliða því að atvinnuleysi þokast upp á við.
„Áraun á framleiðsluþætti heldur áfram að minnka og hlutföll fyrirtækja sem starfa við full afköst og skortir starfsfólk lækka,“ segir í fyrirlestrinum.