Í nýjustu uppgjörum hjá bæði Högum og Festi kemur fram að framlegðarhlutfall félaganna er að lækka. Hlutfallið hjá Festi fór úr 25% árið 2021 niður í 22% árið 2022. Hjá Högum hefur hlutfallið farið úr 25% niður í 19% á síðastliðnum árum, eins og sjá má á grafinu hér að neðan.
Í fjárfestakynningum félaganna fyrir síðustu uppgjör segir að hækkanir á hrávöru-, flutnings- og dreifingarkostnaði hafi leitt til lækkunar á framlegðarhlutfalli félaganna.
Munurinn milli Íslands og Evrópu minnkar
Í samantekt Samkeppniseftirlitsins frá því í desember á stöðunni á neytendamörkuðum er bent á að framlegð dagvöru hafi aukist um 29% á milli 2017 og 2021 í krónum talið. Framlegðarhlutfallið, sem segir til um framlegðina í hlutfalli við veltu, hafi hins vegar lítið breyst milli áranna 2017 og 2021. Hlutfallið hafi hækkað um einungis 0,7 prósentustig á milli áranna 2020 og 2021.
Eitt af því sem greining SKE dró fram er að munur á framlegðarhlutfalli á Íslandi og í Vestur-Evrópu virðist hafa minnkað á undanförnum árum. Þannig var framlegðarhlutfallið á Íslandi það sama árin 2018 og 2021 eða 21% en hækkaði í Vestur-Evrópu úr 16,7% í 19,5% á sama tímabili.
Þá hækkaði framlegðarhlutfall í Vestur-Evrópu áfram á síðasta ári upp í 20% samkvæmt uppfærðum tölum úr gagnagrunni Aswaths Damodarans, prófessors í fjármálum við New York háskóla, sem SKE byggði sinn samanburð á.
Nánar er fjallað um álagningu og framlegð á innlendum matvörumarkaði í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.