Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum var bandarískt móðurfélag Nox Medical, Nox Health, metið á um 20 milljarða króna við kaup bandaríska fjárfestingarsjóðsins Vestar Capital Partners á hlut framtakssjóðsins Umbreytingar í félaginu.

Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Vestar Capital Partners er leiðandi fjárfestingarsjóður sem sérhæfir sig í langtíma vaxtarfjárfestingum og fjárfestir í fyrirtækjum sem starfa í tækni- og heilbrigðisgeiranum. Sigurjón segir innkomu sjóðsins í hluthafahópinn sérlega mikilvæga enda komi hann með mun meira en bara fjármagn að borðinu. Nox hafi sett sér metnaðarfull vaxtarmarkmið og reynsla og þekking Vestar Capital Partners hjálpi til við að láta þau verða að veruleika.

„Í kjölfar aðkomu Vestar höfum við þegar fengið nokkra aðila í stjórn félagsins sem veita okkur dýrmæta aðstoð við að byggja upp og þróa félagið enn frekar. Við erum fremsta fyrirtæki í heiminum á sviði heimamælinga og mælitækni við svefnrannsóknir. Nú ætlum við okkur að komast í auknum mæli inn í þessi stóru kerfi innan bandarísks heilbrigðiskerfis. Vestar hefur hjálpað félögum sem þeir hafa fjárfest í að flýta þróun og auka aðgengi að markaði. Eins og stjórnendur Nox sjá félagar okkar hjá Vestar gríðarleg tækifæri til vaxtar í heilbrigðisþjónustu sem stuðlar að bættum svefni. Þess vegna hafði sjóðurinn mikinn áhuga á að fjárfesta í Nox. Í Vestar hafa stjórnendur Nox fundið öfluga félaga til að koma með okkur í þessa skemmtilegu vegferð og koma félaginu á næsta stig.“

Við komu Vestar í hluthafahóp Nox var ákveðið að fjölga í stjórn félagsins. Einstaklingar með áratuga reynslu og mikla þekkingu á bandarísku heilbrigðiskerfi og þeim áskorunum sem það stendur frammi fyrir tóku þá sæti í stjórninni. Roger Holstein, framkvæmdastjóri Vestar Capital Partners, tók við sem stjórnarformaður en hann hefur komið að fjárfestingum og setið í stjórnum margra þeirra heilbrigðisþjónustufyrirtækja sem hafa náð hvað bestum árangri vestanhafs. Lloyd Dean tók einnig sæti í stjórninni. Hann var einn af ráðgjöfum bandarískra stjórnvalda og þáverandi forseta, Barack Obama, við gerð og framkvæmd sjúkratryggingarfrumvarps, sem síðar varð að lögum, og er í daglegu tali yfirleitt kallað Obamacare. Auk Holstein og Dean settust reynsluboltarnir David Schangler og Bill Lewis í stjórnina.

Nánar er rætt við Sigurjón í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.