Hagnaður og tekjur Síldarvinnslunnar drógust saman milli ára en samstæðan skilaði ríflega 1,9 milljóna dala tapi á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur tæplega 270 milljónum króna. Þá dróst veltan saman um 19,5 milljónir dala og nam 60 milljónum dala, eða sem nemur 8,3 milljörðum króna.
Á fyrstu sex mánuðum ársins var aftur á móti hagnaður af rekstrinum um 9,3 milljónir dala, eða sem nemur hátt í 1,3 milljörðum króna, en á sama tíma í fyrra nam hagnaður 42,7 milljónum dala. Rekstrartekjur samstæðunnar námu þá 142 milljónum dala, eða sem nemur 19,6 milljörðum króna, samanborið við 211 milljónir dala árið áður.
„Reksturinn á ársfjórðungnum er óviðunandi. Þrátt fyrir mikla kolmunnaveiði er afkoman undir væntingum. Má rekja það til minni nýtingar á mjöli og lýsi, hárra hráefnisverða og aukins orkukostnaðar hjá verksmiðjunum. Mjöl og lýsisverð gáfu einnig eftir á fjórðungnum en hafa verið að hækka undanfarið,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, í tilkynningu.
Þá bendir Gunnþór á að uppgjörið beri glögglega merki loðnubrestsins í vetur en makrílvertíðin hafi gengið vel í sumar, markaðir séu sterkir og verð hafi hækkað. Síldarvertíð hefjist þá í framhaldnu og útlit þar gott og markaðir í góðu jafnvægi.
„Almennt er þokkalegt útlit á okkar helstu mörkuðum og eftirspurn góð. Verð hafa verið að styrkjast. Óvissa með komandi loðnuvertíð er enn til staðar en við vonumst til að leiðangrar haustsins gefi okkur fyrirheit um komandi loðnuvertíð. Þrátt fyrir samdrátt á fyrri hluta ársins teljum við horfur þokkalegur fyrir seinni hluta og sjáum ekki ástæðu til að breyta áætlun okkar um EBITDU ársins upp á 74 til 84 milljónir USD,“ segir Gunnþór.
Eignir samstæðunnar voru bókfærðar á 1.043 milljónir dala í lok júní sl., eða sem nemur 145,1 milljarði króna, og eigið fé nam 620 milljónum dala, eða sem nemur 86,3 milljörðum króna.
Jarðhræringar, raforkuskortur og afskipti SKE
Komið er inn á ýmis mál í árshlutareikningi samstæðunnar, þar á meðal jarðhræringar á Reykjanesi.
Í skýrslu segir að ljóst sé að röskun sem orðið hefur á starfsemi Vísis í Grindavík, dótturfélags Síldarvinnslunnar, hafi valdið tjóni í formi tapaðrar framlegðar. Unnið sé að því að móta framtíðarstefnumörkun fyrir reksturinn en stjórnendur telja að rekstrarhæfi félagsins og samstæðunnar sé ekki í hættu. Áframhaldandi starfsemi og rekstrargrundvöllur í Grindavík sé til skoðunar en við mat á því skipti öryggi starfsfólks og vátryggingarvernd miklu máli.
Þá er greint frá því að stjórn Síldarvinnslunnar hafi í byrjun júní síðstliðnum samþykkt beiðni Samherja um að kaup félagsins á helmingshlut í sölufyrirtækinu Ice Fresh Seafood, sem tilkynnt var um í lok september 2023, gangi til baka.
Gunnþór segir í tilkynningu að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hafi komið á óvart en íslenskur sjávarútvegur sé í samkeppni við stóra erlenda aðila og því mikilvægt að sjá aukið samstarf fyrirtækja í markaðssetningu íslensks sjávarfangs erlendis.
Þá segir hann að aukinn orkukostnað megi rekja til skerts aðgengis að raforku og aukinnar olíunotkunar verksmiðjanna.
„Það er óásættanlegt að geta ekki nýtt þá grænu fjárfestingu sem fyrirtækin hafa lagt út í til að lækka kolefnisspor sitt með því að geta nýtt endurnýjanlega orku. Skortur á raforku til fiskimjölsiðnaðarins hefur fært okkur mörg ár aftur í tímann þegar kemur að útblæstri. Kostnaðarauki við að fara yfir á olíu úr rafmagni er 300 milljónir þar af er kolefnisgjald 100 milljónir á fyrstu 6 mánuði ársins. Deila má um hversu sanngjarn sá skattur er þegar ekki er hægt að fá raforku,“ segir Gunnþór.