Fjármálaráðuneytið hefur birt áform um frumvarp um stöðugleikareglu í samráðsgátt. Gert er ráð fyrir að stöðugleikaregla verði útfærð þannig að undirliggjandi útgjöld A1-hluta ríkissjóðs megi vaxa um að hámarki 2,0% að raunvirði á ári.
„Raunvöxt útgjalda umfram 2,0% þurfi að fjármagna með samsvarandi ráðstöfunum til tekjuöflunar,“ segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.
„Tekið skal fram að um er að ræða reglu um hámark útgjaldavaxtar. Efnahagsaðstæður og staða ríkisfjármála kunna að vera með þeim hætti að tilefni geti verið talið til þess að stjórnvöld setji sér þrengri skorður um útgjaldaþróun í því ljósi.“
Stöðugleikareglan var boðuð í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi við birtingu þingmálaskrárinnar í byrjun mánaðar að markmið reglunnar sé að fjármál ríkisins styðji við lægri vexti.
Fjármálaráðuneytið segist hafa unnið að undanförnu að endurskoðun á tölusettu fjármálareglum laga um opinber fjármál og samspili þeirra í ljósi reynslunnar sem fengist hefur af þeim frá því þær voru festar í lög fyrir nærri tíu árum, þegar lögin tóku gildi. Bent er á að kynnt var sérstök umræðuskýrsla um fjármálareglur á Alþingi síðasta vor.
Fjármálaráð rýni forsendur vaxtarhámarksins
Samhliða áformuðum breytingum á fjármálareglunum segir ráðuneytið nauðsynlegt að gera til samræmis breytingar á viðfangsefni fjármálaráðs, sem ætlað að tryggja að fram fari hlutlægt mat á stefnumörkun í opinberum fjármálum.
Áformað er að bætt verði ákvæði í lögin um að hlutverk ráðsins verði einnig að rýna forsendur fyrir vaxtarhámarki útgjaldareglunnar, beitingu hennar sem og forsendur og áhrif tekjuráðstafana sem snúa að svigrúmi til útgjaldavaxtar.
„Auk þessara breytinga er áformað að fjármálaráð taki að sér nýjan starfsþátt sem feli í sér að vakta og greina þróun framleiðni í hagkerfinu. Tilefnið fyrir því er að tryggja framgang áforma sem hafa verið til umræðu milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins með hagkvæmum hætti samhliða því að breikka og styrkja starfsemi ráðsins.“