Guðmundur Árnason, fjármálastjóri tæknifyrirtækisins Controlant, segir félagið í kjörstöðu til að færa út kvíarnar og vaxa hratt í krafti tæknilegs forskots á markaði sínum.

Helsta hindrunin sem staðið geti í vegi fyrir þeim vexti sé skortur á sérhæfðu vinnuafli, en félagið hefur verið að opna starfsstöðvar erlendis í því skyni að sækja á fleiri mið í þeim efnum.

Hvað stefnu og áherslur í þróunarvinnu Controlant varðar ræðst hún að miklu leyti af þörfum viðskiptavina, sem félagið vinnur náið með við að þróa lausnir sínar áfram, enda fáir sem þekkja óskir og þarfir viðskiptavinarins betur.

„Þetta snýst allt um að nýta okkar tækni og sjálfvirknivæðingu til að gera aðfangakeðjurnar þeirra sífellt sterkari og betri og skapa þannig fyrir þá virði sem kemur fram í formi aukinnar hagræðingar og þar með aukins svigrúms til að bjóða svo neytandanum betra verð.“

Vilja nýta meðbyrinn meðan hann varir

Guðmundur sparar ekki stóru orðin þegar kemur að samkeppnisstöðu Controlant á sínum markaði í dag. „Við höfum einfaldlega þróast svo hratt undanfarin ár að við erum klárlega fremst í flokki hvað tæknina varðar þessa dagana. Miðað við þar sem við höfum verið að sjá hjá öðrum á þessum markaði þá höfum við í það minnsta eins til tveggja ára forskot.“

Hann tekur undir og útskýrir nánar að það sé raunar einmitt hvað helst af þessum ástæðum sem stjórnendur sjái sérstakt sóknarfæri í örum vexti í dag. Einmitt þannig verði forskotið nýtt til fulls.

„Við viljum ólmir nýta þann byr sem við erum með í seglunum núna til að ná sem mestum árangri á sem skemmstum tíma og tryggja okkur þar með eins marga viðskiptavini og við getum.“

Viðtalið birtist í sérblaðinu Iðnþing 2023 sem fylgdi síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.