Mikil gróska hefur verið í íslenska nýsköpunargeiranum undanfarin ár. Að mati Guðmundar Fertram Sigurjónssonar, stofnanda Kerecis sem var selt fyrir um 180 milljarða króna á dögunum, felst þó ákveðinn veikleiki í því að reynslumiklir einstaklingar eru heldur ólíklegri til að stofna nýsköpunarfyrirtæki heldur en ungt fólk.

Mikil gróska hefur verið í íslenska nýsköpunargeiranum undanfarin ár. Að mati Guðmundar Fertram Sigurjónssonar, stofnanda Kerecis sem var selt fyrir um 180 milljarða króna á dögunum, felst þó ákveðinn veikleiki í því að reynslumiklir einstaklingar eru heldur ólíklegri til að stofna nýsköpunarfyrirtæki heldur en ungt fólk.

„Til þess að vera árangursríkur frumkvöðull þá verður þú að þekkja iðnaðinn sem þú ert í. Þú þarft að hafa verið inni í honum í áratug, þarft að vita hvernig hann virkar, hvernig verðmætin verða til og kunna á reglugerðarumhverfið,“ sagði Guðmundur í samtali við Viðskiptablaðið að loknum kynningarfundi um söluna á Kerecis til Coloplast.

Hann starfaði sjálfur í lækningavörugeiranum um árabil áður en hann stofnaði Kerecis árið 2008, fyrst hjá Össuri og síðar hjá fyrirtækinu Keraplast.

Guðmundur áréttar að hann sé ekki að kasta rýrð á unga frumkvöðla. Hann telur þó að reynsla sé mikilvæg fyrir árangur sprotafyrirtækja. Það kunni því að vera skynsamlegt fyrir ungt fólk með hugmynd að fyrirtæki að leitast eftir að starfa með einstaklingum með reynslu úr viðkomandi geira.

„Hugmyndin er bara lítill hluti, það er vegferðin sem er veigameiri þáttur. Maður sér það líka af samtölum við fjárfesta að hugmyndin skiptir þá máli en það er reynslan og líkurnar á að ná að framkvæma hugmyndina sem er mikilvægara fyrir þá.“

Guðmundur telur því æskilegt að hvetja reynslumikið fólk til að fást við nýsköpun. Meðal leiða til þess er að hafa stórar úthlutanir úr Tækniþróunarsjóði en mikilvægara sé að styrkirnir séu nægilega stórir heldur en að þeir séu margir.

Guðmundur sagði í viðtali sem birtist Viðskiptablaði vikunnar að hann hafi skuldbundið sig til að stýra Kerecis a.m.k. næstu tvö árin. Jafnframt sagðist hann gera ráð fyrir að taka virkari þátt í íslenska nýsköpunargeiranum í framtíðinni.