Þuríður Björg Guðnadóttir, framkvæmdastjóri Nova upplifunar, seldi 17 milljónir hluta í fyrirtækinu á mánudaginn sl. fyrir rúmlega 80 milljónir króna. Gengi í viðskiptum var þá 4,6840 krónur á hvern hlut.
Samkvæmt skráningarlýsingu frá Nova síðasta sumar átti Þuríður tæplega 30 milljóna hluta í fyrirtækinu. Gera má þá ráð fyrir því að hún eigi nú tæplega 13 milljónir hluta.
Þuríður hefur verið hjá fyrirtækinu alveg frá fyrstu dögum en hún hóf störf hjá Nova árið 2007, þá 18 ára gömul. Hún hefur verið í framkvæmdastjórn fyrirtækisins frá árinu 2017.
Hún hefur einnig víðtæka reynslu á fjarskiptamarkaði en Þuríður hefur meðal annars unnið við sölu og er með BSc gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík.