Skerðing á afhendingu raforku til fiskimjölsverksmiðja sem varð til þess að umræddar verksmiðjur urðu að styðjast við díselolíu síðasta vetur þurrkaði eins og sér út allan loftslagsávinning af öllum rafmagnsbílum sem fluttir hafa verið til landsins með niðurgreiðslum frá ríkissjóði frá upphafi.
Þetta segir Magnús B. Jóhannesson, framkvæmdastjóri StormOrku, í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.
Þar kallar hann eftir að rammaáætlun verði felld niður og að sett verði upp kerfi þar sem grænorkuverkefni þurfi aðeins eitt leyfi og að leyfisveitingarferlið taki að hámarki eitt ár. Hann vísar þar til hugmynda sem Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor í auðlindarétt, viðraði í kvöldfréttum RÚV á dögunum.
Magnús segir að tölfræðileg skoðun á niðurstöðum rammaáætlunar, sem er hluti af núverandi leyfisveitingaferli vatnsafls- og jarðvarmavirkjana, sýni að meðaltímalengd verkefna í rammaáætlun sé um 16 ár. Þá séu dæmi um að þó nokkur verkefni hafi verið þar til umfjöllunar í 23 ár.
„Til samanburðar má nefna að 11,8 MW dísel varaaflsstöð Landsnets í Bolungarvík tók 2 ár, frá undirbúningi til framleiðslu. Kannski verður framtíðarorkunotkun Íslands knúin díselolíu því auðvelt virðist að koma þeim á koppinn en grænni orku ekki.“
Magnús segir að vindlundur StormOrku hafi tafist um 5 ár vegna langs leyfisveitingarferlis. Hefði verkefnið fengið að halda tímaáætlun og hafið framleiðslu á grænni raforku árið 2021 eins og stefnt var að þá hefði Landsvirkjun ekki þurft að skerða raforku á fiskimjölsverksmiðjur síðasta vetur að hans sögn.
„Sú skerðing neyddi fiskimjölsverksmiðjurnar yfir á díselolíu sem þann eina vetur þurrkaði út allan loftslagsávinning af öllum rafmagnsbílum frá upphafi sem fluttir hafa verið til landsins með niðurgreiðslum frá ríkissjóði. Þórisvatn fylltist ekki í haust og því mögulegt að Landsvirkjun þurfi að skerða þessa orku enn á ný í vetur sem setur loftslagsávinning í töluverðan mínus í loftslagsbókhaldinu.“
Hann bætir við að auk langs leyfisveitingarferlis séu grænorkuverkefni umfangsmiklar framkvæmdir sem taki yfirleitt um 3-6 ár. Þróunartími grænorkuverkefni sé að lágmarki 12 ár og geti jafnvel tekið allt að 29 ár miðað við núverandi leyfisveitingartíma að viðbættum byggingartíma.
„Þegar þessar tölur um landnýtingu, raforkuþörfina til atvinnusköpunar, væntanlegar sektir vegna loftslagsmarkmiða, afgreiðsluhraða rammaáætlunar, núverandi leyfisveitingatíma og byggingartíma grænnar orku og díselorku, eru bornar saman þá er einsýnt að eitthvað verður undan að láta því annars mun Ísland ekki ná loftslagsmarkmiðum sínum og dæmt til að greiða himinháar sektir á ári hverju.“
Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast grein Magnúsar í heild sinni hér.