Árni Sigurðs­son, for­stjóri Marels, bindur miklar vonir við nýja lausn fyrir­tækisins í kjúk­linga­vinnslu en Marel fékk ný­verið einka­leyfi á lausninni í Banda­ríkjunum.

Um er að ræða lausn sem Marel þróaði með banda­ríska fyrir­tækinu Bell & Evans og ber heitið LineSplit.

Einka­leyfi á lausninni hefur verið sam­þykkt vestan­hafs og því geta sam­keppnis­aðilar ekki boðið fram sam­bæri­lega lausn í bráð. Sam­kvæmt fjár­festa­kynningu Marels gerir lausnin við­skipta­vinum kleift að kljúfa fram­leiðslu­línuna og vinna allt að 250 kjúk­linga á hverri mínútu, eða sem nemur 15.000 kjúk­linga á klukku­tíma.

Há­marks­hraði á fram­leiðslu­línu fyrir kjúk­ling í Banda­ríkjunum er 140 kjúk­lingar á mínútu, sam­kvæmt reglu­gerðum vestan­hafs. Lausn Bell & Evans og Marels klýfur þó fram­leiðslu­línuna þannig að unnið er með tvö­falda línu á 125 kjúk­linga á mínútu hraða, sem eykur af­köst um­tals­vert. Marel kynnti lausnina á ráð­stefnu í At­lanta í byrjun árs og segir Árni að lausnin gæti um­bylt kjúk­linga­fram­leiðslu í Banda­ríkjunum.

„Þetta gerir við­skipta­vinum okkar kleift að auka hraðann á línunni í kjúk­lingi en Marel er með einka­leyfi á lausninni og enginn sam­keppnis­aðili getur boðið upp á sam­bæri­lega lausn. Við erum að ná að auka hraðann um 50-100%, fer eftir verk­smiðjum, og auka þannig af­köstin tölu­vert. En þetta er lykil­stef í sam­tölum við við­skipta­vini okkar, það eru allir að leita leiða til að auka af­köst og ná fram hag­ræðingu í rekstri og ekki síst skila vöru í hærri gæða­flokki sem var fram­leidd með sjálf­bærum hætti og geta verð­lagt hana eftir því,“ segir Árni.

Árni segir lausnina eiga mögu­leika á að um­bylta markaðnum í Banda­ríkjunum, sem er alltaf að verða stærri hluti af tekjum Marels, en um 30% af allri sölu fé­lagsins koma þaðan núna.

„Við teljum að það séu mjög mikil tæki­færi í að um­bylta kjúk­linga­vinnslu með þessari tækni,“ segir Árni.