Markaðsvirði hlutabréfa skráðra fyrirtækja sem tengjast indversku Adani Group samstæðunni féllu um tæplega 7,7 milljarða dala, eða um 1.100 milljarða króna, í morgun í kjölfar þess að skortsalinn og greiningaraðilinn Hindenburg Research birti skýrslu sem beinist gegn samsteypunni sem Gautam Adani, þriðji ríkasti maður heims samkvæmt Forbes, stýrir. Financial Times greinir frá.
Í skýrslunni er haldið því fram að Adani Group hafi stundað markaðsmisnotkun og bókhaldssvindl á undanförnum áratug. Hindenburg útlistar 88 spurningar vegna þessara ásakana „sem við vonum að Adani Group verði glaðir að svara“.
Hlutabréfaverð félaganna sjö hafa fallið um um 1%-9% í dag en orkuflutningsfélagið Adani Transmissions leiðir lækkanir.
Gautam Adani starfaði sem fjárfestir á hrávörumarkaði á níunda áratugnum en byggði síðar upp stærsta einkarekna innviðafyrirtæki Indlands sem rekur nú um tólf hafnir og átta flugvelli. Samsteypan inniheldur dótturfyrirtæki á ólíkum mörkuðum, þar á meðal í gagnavinnslu og starfsemi tengdri varnarmálum.
Adani félögin hafa vaxið hratt undanfarin ár sem hefur leitt til þess að Gautam Adani er nú ríkasti maður Asíu. Auðæfi hans meira en tífölduðust á milli áranna 2020 og 2022 samkvæmt Forbes. Samkvæmt rauntímalista viðskiptamiðilsins hefur auður hans þó dregist saman um 7 milljarða dala, eða um þúsund milljarða króna, í dag og nemur nú nærri 120 milljörðum dala.
Skýrslan fór í loftið örfáum dögum fyrir hlutafjárútboð á vegum samstæðunnar til að fjármagna vöxt dótturfélaga sem starfa á sviði jarðefnaeldsneytis, iðnaðar og grænnar orku.
Jugeshinder Singh, fjármálastjóri Adani Group, sagði að félagið væri slegið yfir skýrslunni og lýsti henni sem illkvittnislegri samantekt af villandi upplýsingum og tilhæfulausum ásökunum til að koma óorði á félagið. Ljóst væri að tímasetning skýrslunnar væri til þess fallin að grafa undan orðspori samsteypunnar og draga úr eftirspurn í komandi útboðum.