Samkvæmt skýrslu frá Samtökum iðnaðarins frá árinu 2021 nemur uppsöfnuð viðhaldsskuld á innviðum landsins 420 milljörðum króna. Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, telur að það yrði farsælt skref að greiða leið lífeyrissjóðanna til að fjárfesta í innviðauppbyggingu.

Þannig væri hægt að létta á þeim gjaldeyrisþrýstingi sem hafi myndast hjá mörgum lífeyrissjóðum, vegna lagalegs hámarks á hlutfalli erlendra eigna.

Samkvæmt skýrslu frá Samtökum iðnaðarins frá árinu 2021 nemur uppsöfnuð viðhaldsskuld á innviðum landsins 420 milljörðum króna. Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, telur að það yrði farsælt skref að greiða leið lífeyrissjóðanna til að fjárfesta í innviðauppbyggingu.

Þannig væri hægt að létta á þeim gjaldeyrisþrýstingi sem hafi myndast hjá mörgum lífeyrissjóðum, vegna lagalegs hámarks á hlutfalli erlendra eigna.

„Þetta getur varla klikkað. Samkvæmt lögum á veitustarfsemi að vera í meirihlutaeigu sveitarfélaga. En uppsöfnuð viðhaldsskuld á fráveitum er 50-85 milljarðar króna að mati Samtaka iðnaðarins og víða er ástandið ekki í lagi. Sveitarfélögin ráða einfaldlega ekki við þetta og fráveiturnar uppfylla varla Evrópureglugerðir um hreinlæti.“

Ólafur segir að ef nýir innviðir eru teknir með inn í myndina nálgist innviðaskuldin á Íslandi þúsund milljarða króna fram í tímann. Hann bætir við að jafnvel þó að lífeyrissjóðir auki hægt og rólega hlutfall erlendra eigna í eignasafni sínu, þá sé mikið fjármagn sem vanti vinnu innanlands.

„Ég hef áður sagt það opinberlega að mér finnst að stjórnvöld þurfi að endurhugsa hvort það megi ekki markaðssetja innviði, skrá þá á markað og koma skipulagi á þá með sérlögum til að vernda þá, enda eru þeir mikilvægir innviðir. Þá væri hægt að finna öllu þessu innstreymi fjármagns inn í lífeyrissjóðina farveg, og það myndi létta á þessum gjaldeyrisþrýstingi sem hefur myndast hjá mörgum lífeyrissjóðum vegna hámarksins.

Við hjá Birtu höfum ítrekað verið að leita að innviðum, við fórum í Mílu og erum að leita að hagrænum og félagslegum innviðum, eins og hjúkrunarheimilum. Að mínu mati er þörf á ópólitísku samtali um að í þessu felist ekki einkavæðing á innviðum. Það er mjög sérstakt að það skuli vera svona mikil innviðaskuld á meðan lífeyrissjóðirnir þurfa að setja pening í vinnu.“

Hlutfall gjaldeyriseigna lífeyrissjóða af heildareignum nam 39,1% í lok maí á þessu ári, samkvæmt gögnum frá Seðlabankanum, en hlutfallið var 38,5% í árslok 2023. Lagalegt hámark á gjaldeyriseignir lífeyrissjóða er 51,5%, en það hækkaði um 1,5 prósent í janúar síðastliðnum í samræmi við nýlegar breytingar á lögum um lífeyrissjóði.

Lífeyrissjóðirnir eru því áfram vel undir lögbundnu hámarki, en þó eru nokkrir sjóðir að nálgast hámarkið. Gjaldeyriseignir LSR námu til að mynda 43% af heildareignum og gjaldeyriseignir LIVE námu 44,5% af heildareignum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.