Þann 14. nóvember sl. voru indversk flugfélög búin að fá 999 sprengjuhótanir það sem af er ári. Þetta kemur fram á vef BBC en hótanirnar eru tíu sinnum fleiri en þær voru árið 2023.
Samkvæmt aðstoðarflugmálaráðherra Indlands, Murlidhar Mohol, bárust meira en 500 hótanir á síðustu tveimur vikum októbermánaðar.
Hann segir að flestallar hótanir séu gerðar í plati og að ekki sé um raunverulega ógn að ræða. Þær hafa engu að síður valdið víðtækum truflunum á flugsamgöngum og þjónustu.
Indverska lögreglan hefur nú skráð 256 kvartanir vegna þessara truflana og hafa nú þegar 12 manns verið handteknir í tengslum við hótanirnar. Lögreglan segir þetta vera fordæmalausa aukningu en milli 2014 og 2017 bárust alls 120 hótanir.
Í síðasta mánuði sendi flugher Singapúr tvær orrustuþotur til að fylgja flugvél Air India Express eftir sprengjuhótun. Sama mánuð neyddist flug Air India frá Nýju Delí til Chicago til að lenda á afskekktum flugvelli í Kanada og voru farþegar sendir til Chicago með herflugvél.