Danska greiðslu­lausna­fyrir­tækið Flat­pay hefur náð stórum áfanga. Aðeins þremur árum frá stofnun hefur fyrir­tækið náð þúsund starfsmönnum, tveimur árum fyrr en upp­haf­legar áætlanir gerðu ráð fyrir, sam­kvæmt Børsen.

Flat­pay, sem var stofnað í maí 2022 af Sander Jan­ca-Jen­sen og þremur félögum hans, býður fyrir­tækjum greiðslu­lausnir á borð við posa­kerfi, stafræna kassa og net­greiðslur. Félagið er nú með starfs­fólk í fimm löndum: Dan­mörku, Finn­landi, Þýska­landi, Ítalíu og Frakk­landi.

Sam­kvæmt Jen­sen stefnir félagið á að tvöfalda starfs­manna­fjöldann í 2.000 manns fyrir árslok 2026.

„Við erum að vaxa hraðar en við bjuggumst við,“ segir Sander Jan­ca-Jen­sen, for­stjóri og einn stofn­enda Flat­pay.

Sander segir að lykillinn að vextinum sé mark­viss ráðningar­stefna. Félagið leggur áherslu á að ráða starfs­fólk frá löndunum sem starf­semin er í og nýtir einnig ráð­leggingar núverandi starfs­manna við að finna nýja.

Auk hefðbundinna ráðningarað­ferða heldur Flat­pay sér­staka ráðningar­viðburði þar sem um­sækj­endur kynnast fyrir­tækinu og starfs­fólkinu áður en ráðningar fara fram.

„Þannig sjáum við hvernig fólk hagar sér í félags­legu sam­hengi, sem segir okkur mikið um það hvort það muni henta í sölu­starfi,“ út­skýrir Jensen.

Ánægja starfs­manna er lykil­at­riði

For­stjórinn segir að menning fyrir­tækisins og áherslan á ánægju starfs­manna skipti sköpum fyrir vöxt og viðhald starfs­fólks.

„Við viljum að starfs­menn okkar njóti þess að vinna hér. Það skiptir líka við­skipta­vinina miklu máli, þeir finna þegar þeir tala við ein­hvern sem líður vel í vinnunni,“ segir hann.

Hann bætir við að þetta sé eitt af lykil­mark­miðum stofn­endanna frá upp­hafi: „Sama hver þú ert eða hvað þú stendur þig vel – þú verður að haga þér al­menni­lega. Það er ákveðið mottó hjá okkur.“

Flat­pay, sem hefur að baki sér fjár­festa á borð við Danish Seed Capi­tal, Dawn Capi­tal í Bret­landi og HS Invest­ments í London, ætlar að halda áfram hraðri upp­byggingu.

Mark­miðið er að tvöfalda starfs­manna­fjöldann á næstu átján mánuðum og styrkja stöðu sína á ört vaxandi greiðslu­lausna­markaði Evrópu.