Danska greiðslulausnafyrirtækið Flatpay hefur náð stórum áfanga. Aðeins þremur árum frá stofnun hefur fyrirtækið náð þúsund starfsmönnum, tveimur árum fyrr en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir, samkvæmt Børsen.
Flatpay, sem var stofnað í maí 2022 af Sander Janca-Jensen og þremur félögum hans, býður fyrirtækjum greiðslulausnir á borð við posakerfi, stafræna kassa og netgreiðslur. Félagið er nú með starfsfólk í fimm löndum: Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi, Ítalíu og Frakklandi.
Samkvæmt Jensen stefnir félagið á að tvöfalda starfsmannafjöldann í 2.000 manns fyrir árslok 2026.
„Við erum að vaxa hraðar en við bjuggumst við,“ segir Sander Janca-Jensen, forstjóri og einn stofnenda Flatpay.
Sander segir að lykillinn að vextinum sé markviss ráðningarstefna. Félagið leggur áherslu á að ráða starfsfólk frá löndunum sem starfsemin er í og nýtir einnig ráðleggingar núverandi starfsmanna við að finna nýja.
Auk hefðbundinna ráðningaraðferða heldur Flatpay sérstaka ráðningarviðburði þar sem umsækjendur kynnast fyrirtækinu og starfsfólkinu áður en ráðningar fara fram.
„Þannig sjáum við hvernig fólk hagar sér í félagslegu samhengi, sem segir okkur mikið um það hvort það muni henta í sölustarfi,“ útskýrir Jensen.
Ánægja starfsmanna er lykilatriði
Forstjórinn segir að menning fyrirtækisins og áherslan á ánægju starfsmanna skipti sköpum fyrir vöxt og viðhald starfsfólks.
„Við viljum að starfsmenn okkar njóti þess að vinna hér. Það skiptir líka viðskiptavinina miklu máli, þeir finna þegar þeir tala við einhvern sem líður vel í vinnunni,“ segir hann.
Hann bætir við að þetta sé eitt af lykilmarkmiðum stofnendanna frá upphafi: „Sama hver þú ert eða hvað þú stendur þig vel – þú verður að haga þér almennilega. Það er ákveðið mottó hjá okkur.“
Flatpay, sem hefur að baki sér fjárfesta á borð við Danish Seed Capital, Dawn Capital í Bretlandi og HS Investments í London, ætlar að halda áfram hraðri uppbyggingu.
Markmiðið er að tvöfalda starfsmannafjöldann á næstu átján mánuðum og styrkja stöðu sína á ört vaxandi greiðslulausnamarkaði Evrópu.