Yfir þúsund umsagnir hafa borist undir samráðsferli nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins um hagræðingu í rekstri ríkisins, innan við sólarhring eftir að opnað var fyrir innsendingar.

Forsætisráðuneytið tilkynnti um eittleytið í gær um samráðsverkefnið, sem ber yfirskriftina Verum hagsýn í rekstri ríkisins. Opið verður fyrir innsendingar í Samráðsgátt til 23. janúar og í kjölfarið mun starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins fara yfir allar ábendingar sem berast.

„Niðurstöður vinnunnar verða nýttar við að móta áætlun til lengri tíma um umbætur í rekstri ríkisins,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Samhliða boðaði ríkisstjórnin að hún hyggst kynna frekari fyrirætlanir á næstu vikum sem miða að því að hagræða í ríkisrekstri.

Þess má geta að stór hluti umsagnaraðila kusu að hafa umsögn sína ekki opna almenningi.