Meta, móðurfélag Facebook, undirbýr nú að hefja umfangsmikla hópuppsögn í vikunni, samkvæmt heimildarmönnum Wall Street Journal. Talið er að nokkur þúsund manns gætu misst vinnuna hjá netrisanum á næstu dögum.
Samtals störfuðu um 87 þúsund manns hjá Meta í lok september, samkvæmt síðasta uppgjöri. Fyrirtækið sagði starfsmönnum sínum í byrjun vikunnar að aflýsa ónauðsynlegum ferðalögum.
Þó að fyrirhuguð hópuppsögn verði minni en hjá Twitter, sé miðað við hlutfall af fjölda starfsmanna viðkomandi fyrirtækis, þá er talið að hún verði sú stærsta til þessa í ár hjá stóru tæknifyrirtæki. Í umfjöllun WSJ segir að þetta gæti orðið fyrsta viðtæka hópuppsögnin í 18 ára sögu fyrirtækisins.
Hlutabréf Meta féllu um meira en 20% eftir birtingu uppgjörs þriðja ársfjórðungs í lok síðasta mánaðar, en tekjur félagsins drógust saman um 4% á milli ára. Gengi hlutabréfa Meta hefur lækkað um 73% í ár.