Niðurstöðurnar sýna að þrátt fyrir að konur séu almennt taldar búa yfir forystuhæfileikum eru þær ekki valdar í stöður forstjóra í skráðu félagi og ríkjandi viðhorf og áherslur virðast ýta undir að horft sé fram hjá hæfum einstaklingum þegar ráðið er í forstjórastöður,“ segir í fræðigrein sem birtist í nýjasta tölublaðs Tímarit um viðskipti og efnahagsmál.
Greinin ber yfirskriftina „Reynsla stjórnarkvenna af forystuhæfni, tengslaneti og stuðningi við konur til að gegna forstjórastöðu“ og byggir á viðtölum við 22 konur í stjórnum skráðra félaga í íslensku kauphöllinni. Höfundar eru þær Ásta Dís Óladóttir dósent, Sigrún Gunnarsdóttir prófessor, Þóra H. Christiansen aðjúnkt og Erla S. Kristjánsdóttir prófessor en þær starfa allar við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Í ágripi greinarinnar segir að þrátt fyrir ýmsar formlegar og kerfislægar framfarir á undanförnum árum séu einungis þrjár konur forstjórar í skráðum félögum á móti nítján körlum. Þá hafa einungis sex konur gengt starfi forstjóra skráðs félags hér á landi frá upphafi.
Sömu höfundar birtu aðra grein um málið á síðasta ári þar sem niðurstaðan var áþekk líkt og Viðskiptablaðið sagði frá.
Sex konur stýrt kauphallarfélögum
Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka, var eina konan sem stýrði Kauphallarfélagi eftir að bankinn var skráður á markað í júní 2021. Margrét B. Tryggvadóttir forstjóri Nova, bættist í hópinn er Nova var skráð síðasta sumar og þá var Ásta S. Fjeldsted ráðin forstjóri hjá Festi í september. Þar áður höfðu Hildur Petersen verið forstjóri Hans Petersen, Ragnhildur Geirsdóttir starfað sem forstjóri Flugleiða og síðar FL Group og Sigrún Ragna Ólafsdóttir gengt starfi forstjóri VÍS.
„Í viðtölunum kom fram að stjórnarkonurnar teldu að áhrif karla, tengslanet og íhaldssamar staðalímyndir af forystuhæfni kvenna og árangursríkri forystu virðast auki líkur á því að horft sé fram hjá hæfum konum við forstjóraval,“ segir í greininni. Í niðurstöðunum felist skilaboð um tækifæri fyrir stjórnir skráðra félaga til þess að auka gæði ráðninga forstjóra og jafna kynjamun með auknum fjölbreytileika og með því að miða ráðningarnar við árangursríka hæfni til forystu.
Konur séu í engu minna hæfar en karlar en oftar en ekki verði niðurstaðan engu síður að ráða karl, meðal annars vegna tengsla og kunningskapar milli karlkyns stjórnenda og staðalmynda um leiðtogahæfileika sem fremur eru gert ráð fyrir að eigi við um karla en konur.
Viðtölin við stjórnarkonurnar eru nafnlaus en í greininni er haft eftir einum viðmælanda:
„Ég held að þetta sé ekki einhver klúbbur vondra karla sem vilja sitja um og fella ungar konur … þetta er bara einhver ráðningargildra sem er svolítið fólgin í því að ef þú nærð að spegla sjálfa þig í umsækjendunum þá líður þér rosa vel með að ráða viðkomandi, þá verður þetta svo auðvelt … karlmenn eru sekir um það að þeim líður voða vel að hringja í einhvern Sigga vin sinn, því að þeir treysta honum og þeir skilja hvernig hann hugsar og finnst hann svo voða útreiknanlegur og svo fá þeir klapp á bakið frá hinum félögunum … þú veist svona við Pallarnir stöndum saman … því fleiri skipti sem þú getur greitt götu vina þinna, því stærri karl ertu.“
Þá hafi komið á óvart hvað kunningjasamfélagið ráði miklu umfram faglega hæfni við ráðningar í stjórnunarstöður.
„Ég átti von á miklu faglegri umræðu og svoleiðis en þetta er svolítið svona íslenska leiðin, þú vilt kunna vel við fólk, helst þekkja það eða þekkja vel til þess áður en þú tekur svona ákvarðanir. … þá eiga karlarnir, virðist vera, meiri sjéns því að þeir eru oftast í meirihluta í stjórnunum og þeir eru með reynslu sem að konurnar eru ekki með og þeir eru með tengsl við hina karlana. ... þá ertu svolítið búin að taka þetta úr svona einhverju faglegu ferli yfir í bara, ég þekki hann og hann er rosa fínn.
Hindranir sem konur þurfi að yfirstíga séu einfaldlega meiri en karlar.
… vegur kvenna virðist vera svo grýttur… það eru 1000 steinar … ætla ekki að segja að séu settir í götuna … en það er ákveðið að fjarlægja ekki steinana. Einhvern veginn er vegur karlanna miklu miklu greiðfærari … ég þekki ágætlega til tiltölulega nýrra forstjóraráðninga og mér þótti svolítið merkilegt því í fyrri ráðningum var talað um að bransaþekking væri svo svakalega mikilvæg í þessum forstjóraráðningum og því hafa færri konur kannski komist að ... En í þessum tveimur ráðningum þar var fullt af konum með bransaþekkinguna en NEI, þá allt í einu skiptir hún ekkert máli, þá er allt í einu bara rosa mikilvægt að fá bara almennt góðan stjórnanda … það er stundum bara skipt um rök eftir því sem hentar, það er svolítið merkilegt.
Þá er bent á að oft ráði hraði för þar sem fáum valkostum sé í raun velt upp.
Ég innilega hefði viljað ráða konu í þessu tilviki … það var ekki einu sinni stillt upp kandídötum í þessum tveimur ferlum … það kemur bara upp nafn mjög hratt og það er bara keyrt í gegn, punktur. Og þá náttúrulega, það einhvern veginn, rennur upp úr einhvern veginn bara tengslaneti viðkomandi karlmanna í stjórn og enginn stoppar við það.
Einnig er velt vöngum yfir tengslamyndun í viðskiptalífinu meðal stjórnenda og hvort munur hafi verið milli kynjanna í þeim efnum.
,,Strákarnir eru rosa öflugir í því en við erum ekki, við nennum ekkert að fara alltaf í bjór eftir vinnu … við viljum bara frekar fara heim til barnanna okkar” er haft eftir einni stjórnarkvennanna.“
„Ég held að konur til dæmis eru ekki stundum nógu duglegar að … búa til tengslanetin … við erum að nýta bara tímann í annað. Og svo má má líka alveg velta fyrir sér … er ekki bara hins vegar kominn tími á að annað gildismat yfirhöfuð? Þarna erum við að reyna að aðlaga konur að gildismati karla. Er það endilega svo frábært að við þurfum að aðlaga okkur að því?“ er haft eftir einum viðmælanda í greininni.